Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,21% í dag og stóð í 1.691,24 stigum við lok dags en viðskipti með hlutabréf námu 1,1 milljarði króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði einnig um 0,01% í dag og stendur í 1.356,54 stigum en velta á skuldabréfamarkaði var aðeins 715 milljónir.

Mest hækkuðu bréf HB Granda eða um 1,56% í 94 milljón króna viðskiptum og standa þau í 32,50 krónum á hlut. Þá hækkuðu Hagar um 1,21% í óverulegum viðskiptum og Síminn um 0,96% í 101 milljón króna viðskiptum. Bréf Símans standa því í 4,21 krónu við lokun markaða.

Önnur félög ýmist lækkuðu eða stóðu í stað en mest var lækkunin á bréfum Össurar í óverulegum viðskiptum. Þar á eftir var lækkunin mest á bréfum Eikar eða 2,13% en viðskipti með bréf félagsins námu 75 milljónum króna og stóðu í 10,13 krónum hvert við lok dags.

Mest voru viðskiptin með bréf Marel og námu um 308 milljónum króna en bréf félagsins lækkuðu um 0,30% og fást nú á 330,00 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði lítillega í dag í 1,8 ma. viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma stóð í stað í 0,7 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,6 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,1 milljarðs viðskiptum.