Fyrirtækið á bakvið heimþekkta tónlistartímaritið Rolling Stone hefur selt 49% hlut í fyrirtækinu til frumkvöðlafyrirtækis í Singapúr. Er markmiðið með kaupunum að auka vægi tímaritsins á alþjóðlegum mörkuðum.

Sonur pálmaolíuframleiðenda

Um helgina tilkynnti Wenner Media, sem staðsett er í Bandaríkjunum, um að BandLap frá Singapúr hefði keypt hlutinn í fyrirtækinu. BandLap er fyrirtæki sem Meng Ru Kuok stýrir, en hann er sonur milljarðamæringsins Kuok Khoon Hong, sem er stórtækur í framleiðslu á pálmaolíu.

Fyrirtæki hans hefur einnig keypt Swee Lee, sem dreifur gíturum og öðrum hljóðfærum og í síðustu viku keypti fyrirtækið hljóðfærahönnunarstofuna Mono í San Francisco.

Stefnt á alþjóðlega markaði

Í yfirlýsingu BandLap segir að það muni „einblína á að víkka út starfsemi Rolling Stone á nýjum mörkuðum og ýta við alþjóðlegri þróun merkisins.“

Það þýðir að stofnað verði Rolling Stone International sem muni halda tónleika, selja vörur og þjónustu, en ritstjórn blaðsins mun verða algerlega sjálfstæð frá BandLap, segir í tilkynningu fyrirtækisins. Nú þegar gefur Rolling Stone út tímarit sitt í 12 mismunandi útgáfum í jafnmörgum löndum.

Tímaritið segist hafa um 12 milljón lesendur af prentútgáfu sinni, og að vefútgáfa þeirra nái til 65 milljón manns. Þetta er í fyrsta sinn sem Wenner útgáfan hefur hleypt fé utanfrá inn í tímaritið, sem er að nálgast 50 ára afmæli sitt.