Ástralski bankinn CBA rukkaði látna viðskiptavini um þjónustugjöld að því er BBC greinir frá . Þetta kom fram í vitnisburði forsvarsmanna bankans í tengslum við rannsókn á fjármálastofnunum landsins.

Í einu tilfelli innheimti starfsmaður bankans þóknanir af fyrrum viðskiptavini í meira en áratug.

Bankinn hefur áður verið ásakaður um brot á lögum um peningaþvætti og sætt gagnrýni fyrir að hafa veitt óviðgeiandi fjármálaráðgjöf.

Rannsóknin hófst að frumkvæði forsætisráðherrans Malcolm Turnbull í kjölfar hneykslismála. Fjármálaráðherra Ástralíu hefur sagt að niðurstöður rannsóknarinnar geti leitt til þess að stjórnendur banka verði beittir viðurlögum og muni jafnvel þurfa að sæta fangelsisrefsingum.