Alls eru 4.093 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins (SI). Eru það 359 eða 10% fleiri íbúðir en voru í byggingu í september síðastliðnum. Níu af hverjum tíu íbúðum í byggingu eru í fjölbýli. Fram til ársins 2020 spá samtökin að 6.713 nýjar íbúðir verði fullgerðar og að rúmlega 2.200 íbúðir komi árlega inn á markaðinn.

Reykjavík hefur dregið lappirnar

Eftir að hafa dregið lappirnar í uppbyggingu á íbúðamarkaði í samanburði við nærliggjandi sveitafélög á síðustu árum horfir nú til betri vegar í Reykjavík. Samkvæmt talningu SI eru 1.726 íbúðir í byggingu Reykjavík eða tæplega 500 fleiri en fyrir ári síðan. Munar þar mestu um uppbyggingu á Hlíðarenda í Vatnsmýri og RÚV-reitnum svokallaða í Efstaleiti. Fram til ársins 2020 spáir SI að tæplega 3.000 íbúðir komi inn á íbúðamarkaðinn í Reykjavík.

Í Kópavogi eru 1.048 íbúðir í byggingu, sem er um tvöföldun frá haustinu 2016. Mest er uppbyggingin við Smáralind og á Kársnesi. SI spáir að fram til 2020 bætist við 1.500 nýjar íbúðir í Kópavogi.

Í Garðabæ hefur hægt á þeirri miklu uppbyggingu sem hefur verið þar undanfarin tvö ár, en mest hefur aukningin verið í Urriðaholti. Alls eru 594 íbúðir í byggingu í Garðabæ samanborið við 644 fyrir rúmlega ári síðan. Deiliskipulag er þó í auglýsingu og er margt í pípunum, svo sem í Hnoðraholti, og spáir SI að í kringum 700 íbúðir bætist við í Garðabæ á spátímanum.

Lítið sem ekkert hefur verið um að vera í Hafnarfirði, þar sem 150 íbúðir eru í byggingu. Verulega hefur dregið úr uppbyggingu í Hafnarfirði á síðustu árum, en til að mynda voru rúmlega 400 íbúðir í byggingu þar í bæ fyrir fimm árum síðan og eru nær tvö ár síðan lóðum var úthlutað í Skarðshlíð. Vegna strangra skilmála í deiliskipulagi hafa framkvæmdir þó enn ekki hafist þar. SI spáir að færri en 500 íbúðir muni bætast við í Hafnarfirði til 2020.

Mikið líf í Mosó

Mikill kraftur er í uppbyggingu í Mosfellsbæ, þar sem 550 íbúðir eru í byggingu samanborið við 104 haustið 2015. SI spáir að í Mosfellsbæ muni bætast við um 800 íbúðir fram til 2020. Fjölgun íbúða sem hlutfall af heildarfjölda íbúða hefur verið mest í Mosfellsbæ á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011 og spáir SI að fjölgun íbúða á hverja þúsund íbúa verði mest í Mosfellsbæ á næstu árum. Loks eru 25 íbúðir í byggingu á Seltjarnarnesi.

Eftir mikla ládeyðu undanfarin ár spáir SI að fullbúnar íbúðir verði yfir sögulegu meðaltali fram til 2020, en fjármunir leita nú í íbúðafjárfestingu í stað atvinnuvegafjárfestingar. Þá vekur athygli að SI spáir rúmlega 250 fleiri íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu milli 2018 og 2020 en gert hafði verið ráð fyrir í september síðastliðinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .