Eiginfjárframlag frá hinum rússneska Sergei Bedash mun verulega bæta fjárhagsstöðu Neptune  ehf. að sögn Jóns Ólafssonar, framkvæmdastjóra Neptune. Jón segir Bedash  tengdan vísinda- og háskólasamfélaginu en hann varð stjórnarformaður Neptune í október. „Það er nóg að koma okkur á núllið gagnvart lánadrottnum,“ segir Jón um hlutafjáraukninguna. Neptune rekur tvö rannsóknarskip, Neptune EA 41 og Poseidon EA 303, sem sinna einna helst rannsóknum tengdum olíuleit og vindmyllum.

Skipin eru gamlir togarar sem byggðir voru á áttunda áratugnum en var breytt í rannsóknarskip á árunum 2008 til 2010. Óvissa um rekstrarhæfi Fyrirtækið hefur átt í töluverðum fjárhagsvandræðum síðustu misseri.

Í nýjasta ársreikningi Neptune fyrir árið 2016, sem skilað var inn til fyrirtækjaskrár í lok janúar á þessu ári, kemur fram að óvissa sé um rekstarhæfi fyrirtækisins. „Við erum búnir að fara í gegnum skipulagningu og hún er að ganga mjög vel og við erum loksins að rétta aðeins úr kútnum,“ segir Jón.  „Aðalmarkmið okkar er að halda okkur á floti og borga það sem við þurfum að borga og halda áfram að skapa virði.“

Fréttablaðið greindi frá því að Landsbankinn hefði óskað eftir uppboði á Neptune EA 41 og  Poseidon EA 303 í desember vegna 95 milljóna króna skuldar Neptune við bankann. Jón segir þá hafa gert upp sitt gagnvart Landsbankanum. „Það er allt í ferli. Þeir eru allavega sáttir við okkur dag,“ segir Jón. Þá óskaði Arion banki eftir því að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun mars vegna lífeyrisskulda en sú skuld var gerð upp í vikunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .