RÚV hefur birt öll samskipti fréttamanna og fréttastjóra RÚV við Samherja síðustu vikur, að því er kemur fram í yfirlýsingu sem Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV og ritstjóri Kveiks, undirritar og send hefur verið til fjölmiðla. Einnig má lesa um samskiptin hér .

Ástæðan fyrir birtingunni er fullyrðing forstjóra Samherja hf. í fjölmiðlum um að RÚV hafi nálgast fyrirtækið á fölskum forsendum, hafnað fundarbeiðni og ekki sinnt hlutleysisskyldu sinni við vinnslu á fréttaskýringaþætti Kveiks í gærkvöldi.

Samkvæmt yfirlýsingunni staðfesta samskiptin, bréf og tölvupóstar, að Kveikur hafi ítrekað reynt að leita svara og viðbragða hjá Samherja, hafi veitti ítarlegar upplýsingar um umfjöllunarefnið og setti fram efnislegar spurningar í viðtalsbeiðni til fyrirtækisins 25. október sl..

„Vinnubrögð RÚV eru fyllilega í samræmi við lögbundnar skyldur skv. lögum um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013, reglum sem hvíla á blaða- og fréttamönnum og sá tími sem fyrirtækinu gafst til andsvara,“ segir í yfirlýsingunni, en samskipti fréttastofunnar og fyrirtækisins er lýst á eftirfarandi veg:

„Fyrsta viðtalsbeiðni fréttamanna Kveiks var send forstjóra Samherja þann 15. október sl. með þeim orðum að til stæði „að fjalla um þróunaraðstoð Íslendinga í sjávarútvegi og aukin umsvif íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja erlendis.“ Þeirri beiðni var hafnað samdægurs með þeim orðum að forstjóri Samherja sæi ekki ástæðu til að fara í slíkt viðtal.

Önnur viðtalsbeiðni, með ítarlegum útskýringum um efnisatriði og spurningum til Samherja, var svo send 25. október sl. en þar segir m.a.: „Meðal gagna sem við byggjum umfjöllunina á eru tölvupóstar, myndir, reikningar og greiðslukvittanir, sem sýna fram á að félög í eigu Samherja hafi greitt aðilum tengdum sjávarútvegsráðherra Namibíu umtalsverðar fjárhæðir fyrir aðgengi að fiskveiðikvóta í landinu.“ Gefinn var rúmur tími til andsvara í samræmi við vinnureglur fréttastofu RÚV en ekkert svar barst frá Samherja.

RÚV barst svo formlegt svar frá Samherja 6. nóvember sl. þar sem fyrirtækið segist taka fyrirspurn Kveiks alvarlega og býður fréttastjóra RÚV, sem ábyrgðarmanni Kveiks, til fundar í Lundúnum til að ræða málið og fá bakgrunnsupplýsingar sem fyrirtækið telji mikilvægar.

Í svari fréttastjóra til Samherja 7. nóvember sl. var viðtalsbeiðni Kveiks ítrekuð, fyrirtækinu boðið að svara spurningum skriflega sem og að koma gögnum til þáttarins. Fundarboði Samherja til fréttastjóra í Lundúnum var hins vegar hafnað.

Í svari RÚV 9. nóvember sl. er enn ítrekuð viðtalsbeiðni Kveiks til Samherja, boð um að veita skrifleg svör eða að koma gögnum á framfæri. Þar segir einnig, „...fráleitt að halda því fram að fundarboð til London á bak við luktar dyr teljist eðlilegt eða gegnsætt ferli sem íslenskur fjölmiðill geti fallist á að taka þátt í.“

Samherji bauðst í kjölfarið til að hitta fulltrúa RÚV á fundi í Reykjavík og segist í svari sínu 10. nóvember sl. hafa viðkvæmar upplýsingar og upplýsingar um mögulega ólögmæta háttsemi fyrrverandi starfsmanns fyrirtækisins. Þessum upplýsingum væri hins vegar ekki hægt að deila með almenningi að svo stöddu.

Í svari RÚV 11. nóvember segir: „Fréttamenn Kveiks eru, sem fyrr, reiðubúnir að hitta forstjóra Samherja á fundi til að fá svör við spurningum, gögn sem tengjast málinu eða yfirlýsingu frá fyrirtækinu svo koma megi andsvari Samherja á framfæri í fyrirhugaðri umfjöllun. Fundurinn verður hins vegar að vera opinn og gegnsær og ekki háður skilyrðum Samherja.““