Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) hefur ekki fylgt lögum sem um félagið gilda með því að láta það lenda á milli skips og bryggju að stofna dótturfélög utan um samkeppnisstarfsemi sína. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu ríkisendurskoðanda um félagið.

Meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni er að álitamál sé hvort hlutafjáraukning sem gerð var árið 2009 sé að efni til ívilnun í formi niðurfellingar á skuld fremur en eiginleg hlutafjáraukning. Þá er því slegið föstu að rekstur RÚV hafi frá upphafi verið ósjálfbær miðað við umfang starfseminnar og dagskrárgerð.

„Enda var lagt upp með fjárhagsáætlun sem gerði ráð fyrir að félagið þyrfti um 1,5 milljarða króna hærri peningalegar tekjur á tímabilinu 2007-16 til að viðhalda þeirri sjóðsstöðu sem það var stofnað með. Eiganda og stjórnendum félagsins hefði því frá upphafi mátt vera ljóst að félagið stefndi í fjárhagsvanda sem ekki væri hægt að vinna á með óbreyttri fjármögnun og rekstri,“ segir í skýrslunni.

Svo virðist sem fjármálastjórn RÚV hafi lengst af verið háttað líkt og um A-hluta ríkisstofnun væri að ræða en þar er einkum litið til þess að rekstur rúmist innan fjárheimilda.

Afkoma RÚV batnaði umtalsvert er félagið seldi frá sér lóðaréttindi og byggingarétt á lóð sinni. Athugasemdir eru gerðar við þann gjörning í skýrslunni. „[A]thyglisvert [er] að árið 2015 hafi Reykjavíkurborg gengið til áðurnefnds samnings við RÚV ohf. um lóðaréttindi og byggingarétt á lóðinni við Efstaleiti án þess að gera kröfu um þátttöku í stofnkostnaði innviða og því að gera lóðina byggingarhæfa. Einnig vekur athygli hversu lítill hluti afraksturs þessa samnings kom í hlut borgarinnar. Ríkisendurskoðandi leggur ekki mat á það hvort hér sé í reynd um opinbera aðstoð að ræða. Þó er víst að bæði ríki og borg framseldu umtalsverð verðmæti til ógjaldfærs opinbers hlutafélags til að hægt yrði að lækka skuldir þess,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni er einnig vikið að því að mennta- og menningarmálaráðherra haldi um hlutabréfið í RÚV ohf. en slíkt er óvanalegt. Tíðkast hefur í framkvæmd að handhafi bréfsins sé fjármála- og efnahagsráðherra. Stjórn félagsins er síðan kjörin á Alþingi og fær hver flokkur vanalega að tilnefna sinn stjórnarmann.

„Hið óvenjulega stjórnarfyrirkomulag RÚV veldur því hins vegar að félagið er ekki undir fjárhagslegu eftirliti af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins líkt og önnur opinber hlutafélög í eigu ríkisins en almennt telur ríkisendurskoðandi að efla þurfi slíkt eftirlit með félaginu,“ segir í skýrslunni.

Tillögur ríkisendurskoðanda felast í því að tryggja að RÚV fari að lögum þó að það kunni að leiða af sér óhagræði í rekstri. Þá þurfi að verðmeta réttinn til nýtingar á viðskiptaboðum og gjaldfæra hann með viðeigandi hætti. Enn fremur að handhöfn hlutabréfsins verði færð til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og að efla þurfi eftirlit stjórnar með fjárhag fyrirtækisins.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.