Rosita YuFan Zhang, eigandi Sjanghæ á Akureyri, veitingastaðarins sem RÚV birti fréttir sem sögðu að mansal væri viðhaft á staðnum hefur ákveðið að stefna Ríkisútvarpinu. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá þurfti staðurinn að loka í kjölfarið þrátt fyrir staðfestingu stéttarfélaga að enginn fótur væri fyrir staðhæfingum ríkisfjölmiðilsins.

Nú hefur lögmaður Rositu, Jóhannes Már Sigurðsson sent frá sér tilkynningu þar sem Rosita lýsir afleiðingum fréttaumfjöllunarinnar. Segir hún 30. ágúst síðastliðinn hafa verið myrkan dag í sínu lífi sem hafi haft mikil áhrif á 8 ára dóttur sína sem hafi hlaupið grátandi undan ágangi fréttamanna að því er Vísir greinir frá.

„Þessi framkoma og fréttaflutningur virkaði eins og hnífur sem beitt var á fjölskyldu mína,“ segir Rosita. „Fréttamenn RÚV eiga að leita sannleikans og hafa réttlæti að leiðarljósi í sinni vinnu, í stað þess að valda saklausu fólki skaða!“

Ásökun um glæp sem varðar allt að 12 ára fangelsi

Rík skylda hvílir á fjölmiðlum og fréttamönnum að fylgja siðareglum, starfsreglum og öðrum hátternisreglum, sérstaklega þegar kemur að umfjöllun um meinta refsiverða háttsemi, en mansal varðar allt að 12 ára fangelsi,“ segir lögmaðurinn í bréfi sínu.

„Að þessu var ekki gætt við fréttaflutnings Rúv þann 30. ágúst sl. Hefur umbj. minn því ákveðið að leita réttar síns og falið undirrituðum að undirbúa stefnu á hendur Rúv, fréttamanni og öðrum sem ábyrgð kunna að bera.“