Samtök atvinnulífsins ætla að kæra fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir Eflingar fyrir Félagsdóm. Frá þessu er greint á fréttavef RÚV en verkföll hefjast að óbreyttu 18. mars nk.. Rætt er við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, sem segir ákvörðunina hafa verið tekna seint í gærkvöldi.

„Verkfall snýst um það að mæta ekki í vinnu og þiggja ekki laun. Þarna á að mæta í vinnu, ekki vinna öll störf en samt þiggja laun. Þetta markar skörp og illverjanleg skil frá beitingu og þróun hefðbundins verkfallsréttar. Ef það er eitthvað sérstakt keppikefli að láta reyna á mörk löglegra verkfalla þá munum við takast á við það með því að beina álitamálum til Félagsdóms,“ segir Halldór Benjamín.

Halldór Benjamín segir samninganefnd samtakanna sitja við samningsborðið frá morgni til kvölds, en hann harmi að Efling skuli ekki taka þátt í viðræðunum.  „Þau eru að alla daga, líka um helgar að reyna að ná samningum. Við erum í viðræðum við Starfsgreinasambandið, Samflot iðnaðarmanna og Landssamband íslenskra verslunarmanna og það væri óskandi að Efling myndi einnig sitja við samningaborðið í stað þess að vera með kjaradeiluna í þessum átaka farvegi.“ segir Halldór Benjamín.