Þýska efna- og lyfjafyrirtækið Bayer hefur gert tilboð í bandaríska fyrirtækið Monsanto sem einna frægast er fyrir framleiðslu á erfðabreyttum sáðkornum fyrir landbúnað. Hljómar tilboðið uppá 62 milljarða bandaríkjadali en það er ekki bindandi og eru jafnvel uppi hugmyndir um að þeir muni þurfa að greiða enn meira. Hlutafé í Monsanto hækkaði á mörkuðum í dag í 106,61 bandaríkjadal hluturinn en talið er að fyrirtækinu gæti gengið illa að sannfæra hluthafa Monsanto til að selja. Þetta kemur fram í frétt Reuters um málið.

Markus Manns sjóðsstjóri Union Investment sem er stór hluthafi í Bayer segir þetta verð þó vera við hæstu mörk og ef það myndi hækka væri yfirtakan ekki lengur aðlagandi. Margir hluthafar í Bayer hafa tekið illa í þessar hugmyndir en haft er eftir einum þeirra að hér væri um að ræða „hrokafulla heimsveldisuppbyggingu“

Ef tilboðinu verður tekið verður þetta stærsta yfirtaka sögunnar þar sem greitt er fyrir hlutabréf með reiðufé. Bayer er að bjóða 122 bandaríkjadali fyrir hvern hlut sem er 37% yfir markaðsvirði bréfanna þegar tilboðið var lagt fram.

Hlutabréf í Bayer hafa hins vegar lækkað um 14% síðan kvittur fór á kreik um tilboðið í síðustu viku, en þau lækkuðu um 5,4% á mánudag í 84,68 evrur sem er það lægsta sem þau hafa verið í um tvö og hálft ár.