„Hugmyndin sjálf er í raun hundgömul, við erum að fara að bjóða upp á pizzur. Það sem er í raun og veru nýtt við þetta, er að það er ekki boðið upp á þessa tegund á Íslandi. Þetta eru Napoletana pizzur, sem sækja í hefð- ir Napólí, eins og pizzan var gerð upprunalega þegar hún var fundin upp árið 1780. Hjá okkur snýst þetta um einfaldleika og gæði hráefnanna,“ segir Sindri Snær Jensson, einn stofnenda Flatey Pizza.

Staðurinn verður opnaður úti á Granda seint í júlí að sögn Sindra Snæs. „Við erum fjórir félagar sem erum að opna þennan pizzastað saman: Jón Davíð Davíðsson, Haukur Már Gestsson & Brynjar Guðjónsson, og svo er það ég, Sindri Snær Jensson. Við erum allir úr Laugarneshverfinu, 105 og 104, og við höfum alltaf þekkst og spilað fótbolta saman. Brynjar og Haukur hafa verið með þrá- hyggju fyrir þessari tegund af pizzagerð í nokkuð mörg ár. Svo erum við Jón Daði á hinum kantinum. Við rekum fataverslunina Húrra Reykjavík og það gengur mjög vel, við erum með tvær verslanir og allt er í blússandi sókn. Okkur langar líka að opna veitingastað og þá þótti okkur rökrétt skref að mætast á miðri leið við fjórir og þeir fóru að sýna okkur þessar Napoletana pizzur,“ segir Sindri Snær.

Pizzur í öll mál

Fóru félagarnir til London til að vinna rannsóknarvinnu. „Við fórum á átta Napoletana-staði þar á tveimur dögum og borð- uðum pizzur í öll mál, og var það góð viðskiptaferð. Þar vorum við að fræðast um pizzurnar og eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir Sindri Snær. Hann bætir við að honum hafi síðan þá ekki langað í hefðbundnar pizzur, eins og við þekkjum þær nú. „Okkar pizzur eru léttar og deigið er gott, það er ekki séns að maður leifi skorpunni. Svo er það þessi samblanda hráefnanna, við notum alltaf ferskan mozarellaost, ítalska tómata, deigið og basil. Þetta er ferskt, mjög heilnæmt og ótrúlega gott,“ bætir hann við.

Sindri Snær segir fegurðina við degið felast í einfaldleikanum: „Það er ekkert í því nema vatn, hveiti, salt og náttúrlegt ger. Deigið hefast í tvo til þrjá sólarhringa og svo bakast pizzan á einni mínútu í 500° ofni. Úr verður ótrúlega loftmikil, bragðgóð pizza,“ segir Sindri Snær. Flatey Pizza flytur sérstaklega inn tómata frá Ítalíu. „Frá San Marzano héraði. Í raun og veru máttu ekki kalla þig Napoletana pizzustað nema að þú sért með þess konar tómata. Við erum að leggja upp með það að halda í hefðir Napólí. Margir þekkja þessar pizzur erlendis frá, en þær hafa ekki fengist hérna á Íslandi, þetta afbrigði. Margir hafa verið að daðra við þetta, en með misjöfnum árangri,“ segir Sindri Snær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.