Farþegafjöldi Icelandair nam tæplega 564.000 í júlímánuði og jókst um 9% milli ára. Þetta kemur fram í flutningatölum félagsins fyrir júlí sem birtar voru fyrir skömmu. Sætanýting í mánuðinum var 82,9% en var 85,3% á sama tíma í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu segir að leiðakerfisbreytingar sem gerðar voru vegna kyrrsetningar MAX véla félagsins skömmu fyrir ferðatímann hafi haft talsverð neikvæð áhrif á sætanýtingu í mánuðinum.

Farþegar til Íslands námu tæplega 251.000 og fjölgaði um 32% frá sama tíma í fyrra og hefur Icelandair aldrei flutt jafnmarga farþega til landsins í júlímánuði eins og í ár. Þá fjölgaði farþegum einnig frá Íslandi eða um 23% og voru þeir tæplega 60 þúsund talsins. Tengifarþegum á leið yfir Atlantshafið fækkaði hins vegar um 10% milli ára og voru 253 þúsund talsins. Sá markaður var hins vegar stærsti markaður félagsins í mánuðinum eða með um 45%.

Komustundvísi í leiðakerfi félagsins var 71% samanborið við 51% í júlí á síðasta ári.

Farþegar Air Iceland Connect voru um 28.000 í júlí og fækkaði um 10%. Sætanýting nam 72,1% og dróst örlítið saman á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fjölgaði um 5% milli ára og fraktflutningar jukust um 6%. Seldar gistinætur hjá hótelum félagsins jukust um 3% og var herbergjanýting 89,6% samanborið við 84,1% í júlí 2018