„Samtök ferðaþjónustunnar harma framsetningu fréttar í kvöldfréttum RÚV í gær þar sem skekkt mynd er dregin upp af heilli atvinnugrein." Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum og vísa þau í frétt í kvöldfréttum rúv í gærkvöldi .

„Skilja mátti á fréttinni og viðtali við fulltrúa stéttarfélagsins Eflingar að atvinnurekendur gisti- og veitingahúsa færu almennt á svig við gildandi lög og reglur til að hlunnfara starfsfólk. Ljóst er að einhliða framsetning sem þessi, þar sem alhæft er um atvinnurekendur í heilum starfsgreinum á grundvelli afmarkaðra dæma án þess að viðbragða sé leitað, er ótæk.

Innan vébanda SAF starfar fjöldi hótela, gististaða og veitingahúsa sem kappkosta að fara eftir lögum og reglum gagnvart starfsfólki og samtökin leggja mikla áherslu á fagmennsku og eðlilega viðskiptahætti meðal félagsmanna sinna. SAF starfa daglega með fjölda félagsmanna í viðkomandi greinum og reynslan sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra leggur áherslu á að fara eftir reglum sem gilda á vinnumarkaði, lögum og kjarasamningum gagnvart starfsfólki. Þá er rétt að nefna sérstaklega að SAF hefur undanfarin ár lagt sérstaka áherslu á fræðslu- og menntamál starfsfólks í ferðaþjónustu, m.a. í gegn um starf Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, þ.á.m. á gisti- og veitingastöðum.

SAF ítreka þá afstöðu sína að fyrirtæki í atvinnurekstri á Íslandi eiga að fara að fullu að kjarasamningum og lögum um vinnumarkað. Mikilvægt er að tekið sé á jaðartilvikum eins og þeim sem fjallað er um í fréttinni og SAF taka heilshugar undir mikilvægi þess að starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði þekki vel réttindi sín og skyldur. Þar bera jafnt atvinnurekendur og starfsfólk ábyrgð og mikilvægt að samtök atvinnurekenda og verkafólks vinni í sömu átt að því markmiði. Fréttir eins og sú sem vísað er til hér að ofan, þar sem með alhæfingu er gefin skekkt mynd af heilum geira atvinnureksturs án þess að viðbragða sé leitað, eru því miður lítt til þess fallnar að færa slíkt samstarf fram á veginn heldur ýta því miður fremur undir upptakt að átökum á vinnumarkaði," segir í tilkynningu.