Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt fram aðgerðaráætlun í 11 liðum með víðtækum stuðningi til handa greinarinnar. Meðal aðgerða eru að álögur verði lækkaðar á greinina, Seðlabankinn hafi útflutningshagsmuni að leiðarljósi, ríkið auki framlög til Íslandsstofu um á annan milljarð, og fyrirtæki í greininni fái niðurskellingar og fjárfestingu, meðal annars frá lífeyrissjóðum.

Í skjalinu – sem ber titilinn Vegvísir um viðspyrnu ferðaþjónstu til 2025 – eru aðgerðirnar tíundaðar ítarlega, og viðspyrna ferðaþjónustunnar sögð forsenda endurreisnar efnahagslífsins í heild eftir faraldurinn.

Lagt er til að virðisaukaskattur á greinina verði lækkaður í 7% til 2024, tryggingagjald „lækkað myndarlega“ frá og með næsta ári, og heimild til álags á fasteignagjöld afnumin. Létt verði á sértækum sköttum og gjaldtöku, þar sem horft verði til varanlegs afnáms gistináttaskatts, lækkunar þjónustugjalda opinberra aðila og tímabundinnar endurgreiðslu áfengisgjalds til veitingahúsa. Þá er lagt til að Seðlabankinn grípi inn í gengisþróun með hagsmuni útflutningsgreina að leiðarljósi.

Framlög ríkisins til Íslandsstofu verði varanlega aukið um 1-1,5 milljarð króna árlega til að markaðssetja ferðaþjónustu erlendis, flugfélög studd næstu 2 ár til að bjóða upp á flug til Íslands, hæfnisetur ferðaþjónustunnar verði sett varanlega á fjárlög.

Greiðslum bæði opinberra gjalda og endurgreiðsla lána hjá bankastofnunum verði frestað eitthvað fram á næsta ár, og fasteignagjöldum um tvö ár. Ferðagjöf og markaðssetningarátak innanlands verði framlegt út næsta ár.

Lífvænlegum fyrirtækjum gefin fyrirheit um fjárhagslega endurskipulagningu þegar faraldurinn er liðinn hjá og fjárfestingasjóður stofnaður með aðkomu lífeyrissjóða til að bæta eiginfjárstöðu þeirra.

Atvinnuvegaráðuneytinu verði skipt upp í ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti annarsvegar og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti hinsvegar, starfsemi Ferðamálastofu efld, og ferðamálaráð skipað sömu fulltrúum og í Stjórnstöð ferðamála.

Þá verði tölfræði um ferðaþjónustuna – svokallaðir ferðaþjónustureikningar – skilgreind sem lögbundið verkefni Hagstofunnar, og framlag ríkisins til rannsókna í ferðaþjónustu tvöfaldað. Að lokum skuli eftirlit með erlendri og ólöglegri starfsemi bætt stórlega.