Ari Askhara, forstjóri indónesíska ríkisflugfélagsins Garuda hefur verið sagt upp störfum hjá félaginu fyrir að hafa smyglað Harley Davidson mótorhjóli auk tveggja annarra mótorhjóla til landsins. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Samkvæmt fjármálaráðherra Indónesíu kom Askhara sér frá því greiða toll upp á 107.000 dollara með smyglinu. Hjólin voru flutt til Indónesíu frá Frakklandi en allir ferlar smyglsins fóru í gegn um Garuda auk þess sem greiðsla fyrir þau var framkvæmd af fjármálastjóra félagsins í Amsterdam.

Þegar fyrst komst upp um smyglið lá ekki ljóst fyrir hvort Askhara, sem tók við starfi forstjóra í september árið 2018 yrði sagt upp störfum eða ekki. Nú liggur hins vegar ljóst fyrir að smyglið hefur kostað hann starfið

Garuda hefur verið undir smásjá yfirvalda í Indónesíu síðustu misseri en í júní á þessu ári var félaginu gert að vinna ársuppgjör sitt upp á nýtt vegna bókhaldsmistaka.