Íslenska auglýsingastofan Sahara hefur nú sókn á nýjan markað, en í janúar mun Sahara opna útibú í borginni Orlando í Flórídaríki í Bandaríkjunum.

„Í dag vinnum við mikið fyrir íslensk fyrirtæki í sókn erlendis og fyrir erlenda viðskiptavini. Við horfum á þetta sem leið til að styrkja núverandi samstörf og þjónustuframboðið okkar innanlands, sem og erlendis,“ segir Sigurður Svansson, stofnandi og meðeigandi Sahara í samtali við Viðskiptablaðið. Sigurður flytur út 10. janúar en opnun útibúsins hefur verið í vinnslu í um það bil 17 mánuði að sögn Sigurðar.

Sahara ætlar að setja upp erlent markaðsteymi og ráða bandaríska starfsmenn inn í teymið, sem Sigurður segir að muni styrkja þjónustuframboð fyrirtækisins enn frekar. „Möguleikar á auglýsinga nálgun erlendis er mun meiri en hér heima og því opnar þetta á spennandi tækifæri fyrir núverandi viðskiptavini Sahara. Þar má til að mynda nefna meiri þekking á auglýsingum á miðlum eins og Spotify, TikTok, Instagram og meira aðgengi að tæknirisunum.“ Nú þegar starfa fimm starfsmenn í alþjóðlegu teymi innan Sahara á Íslandi.

Ætla að ná sömu stemningu í nýja útibúinu

Sahara var í 11. sæti á lista Great Place to Work í Evrópu meðal lítilla fyrirtækja, og í 2. sæti á listanum meðal íslenskra fyrirtækja, en Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar. Sigurður segir að fyrirtækið ætli sér að ná sömu stemningu í nýja útibúinu og að lykillinn í því sé flutningur hans til Orlando. „Lykilþátturinn er að senda út starfsmann sem er búinn að vinna í uppbyggingu fyrirtækisins hér heima sem þekkir innviði, ferla og kúltúrinn, hvað við stöndum fyrir og hvernig við viljum vinna. Það mun smita út frá sér til nýrra starfsmanna.“

Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara á Íslandi, segir að þetta sé í takt við þróun sem fyrirtækið hefur verið að stefna að, en COVID faraldurinn hefur hjálpað til við að ýta útrásinni yfir línuna eftir tæplega tveggja ára aðlögun að breyttu vinnulagi. „Þetta er mun auðveldara skref í dag miðað við fyrir fjórum árum síðan þegar maður var ekki með reynslu af því að vera í eins mikilli fjarvinnu.“