„Þegar þínir fyrrum kolleg­ar, for­stjórar Kaup­þings á Íslandi og Lúxemborg, hafa verið fang­els­aðir fyrir sína glæpi, þá er ótrú­legt að hugsa til þess að FME geti lýst því yfir að þú sért hæfur til þess að stjórna Kviku Banka hf..“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í opnu bréfi eftir Kevin Stanford og Karen Miller til Ármanns Þorvaldssonar, aðstoðarforstjóra Kviku banka, sem birt var á fréttavef Kjarnans . Ármann er borinn þungum sökum í bréfinu en hjónin telja fullvíst að Ármann hafi bæði verið meðvitaður og tekið þátt í þeirri markaðsmisnotkun sem átti sér stað innan Kaupþings á árunum fyrir hrun.

„Und­ir­rit­aður (Kevin), hefur verið í deilum við slitastjórn Kaup­þings frá falli bank­ans árið 2008, og af þeim deilum eru ásak­anir mínar lit­að­ar. Þess vegna leit­ast ég við að sanna ásak­anir mínar og í þeirri við­leitni lít ég til frá­sagna, þ.m.t. þinna, til að lýsa þeim atburðum sem áttu sér stað,“ skrifa Stanford og Miller, sem segjast hafa sent stjórn Kviku banka, Fjármálaeftirlitinu og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sönnunargögn sem sanni staðhæfingar þeirra hjóna.

„,Það vekur furðu að fjár­mála­ráð­herra Íslands, Bjarni Bene­dikts­son, eða Fjár­mála­eft­ir­lit­ið, svari eða rann­saki ekki stað­hæf­ingar mín­ar, vegna þess að það er skylda þeirra að tryggja að trú­verð­ug­leiki stjórn­enda bank­ans sé haf­inn yfir allan vafa. Hins vegar bendir skrán­ing Íslands á „gráan lista” alþjóð­legs starfs­hóps um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka, með Mongólíu og Simbabve, skýrt til þess að eft­ir­lits­stofn­anir á Íslandi starfa ekki sam­kvæmt sömu við­miðum og ann­ars staðar í hinum vest­ræna heimi.

Við buðum þér að halda uppi vörnum gagn­vart stað­hæf­ingum mínum eða segja af þér hjá Kviku banka hf., þar sem þú gerðir hvor­ugt, þarf að upp­lýsa fram­an­greinda aðila og almenn­ing, þar sem það er mik­ill munur á hátt­semi frá fyrri tíð sem leiðir til sak­fell­ingar og hátt­semi sem leyfir áfram­hald­andi traust til þess að reka banka sem skráður er á aðal­markað í kaup­höll,” segir ennfremur í bréfi hjónanna sem telja málið til marks um að það gáleysi sem íslensk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþings sé enn við lýði á Íslandi.