Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lýst yfir óánægju með skrif Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, sem voru birt í vikulegum pósti hans þann 25. september síðastliðinn.

Í umræddum pósti fer borgarstjóri gagnrýnisorðum um það sem hann segir vera skoðanir Áslaugar Friðriksdóttur í velferðarmálum í föstudagsviðtali Fréttablaðsins . Í pósti borgarstjóra kemur fram að Áslaug hafi í umræddu viðtali boðað róttæka einkavæðingu í velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar. „Hún vill bjóða hana út og veita fyrirtækjum í velferðarþjónustu frelsi til að „búa til aukaþjónustu“ sem einstaklingar greiða þá beint fyrir," segir meðal annars í pósti borgarstjóra.

Ekki sæmandi borgarstjóra

Í umræðum í borgarstjórn í dag sagði Áslaug hins vegar að þessar fullyrðingar væru rangar og að borgarstjóri hefði gegn betri vitund gert henni upp skoðanir í pósti sínum. „Þarna er verið að ljúga. Það er beinlínis verið að ljúga upp á mig einhverjum skoðunum," sagði Áslaug í ræðu sinni.

Í viðtali við Fréttablaðið sagði Áslaug meðal annars: „Ég held að við þurfum að fara meira í útboð þar sem við bjóðum fólki að koma og reka velferðarþjónustu.“ Í viðtalinu leggur hún einnig til að verkefni í velferðarþjónustu verði boðin út. „Þannig munum við fá fjölbreytni og þau fyrirtæki sem þá myndu líta dagsins ljós eru betur til þess fallin að fara í þá nýsköpun sem við þurfum í þessum geira. Við þurfum breytta nálgun. Nú er mikil óánægja með þjónustuna og hefur verið lengi," er haft eftir Áslaugu.

„Mér finnst það ekki sæmandi borgarstjóra að senda svona út. Hann heldur því hér blákalt fram að ég hafi verið að boða það að þjónusta verði takmörkuð. Hann veit það fullvel sjálfur að það er ekki rétt. Við erum búin að senda inn ítarlega fyrirspurn inn í stjórnkerfis og lýðræðisráð sem við ætlumst til að fá svör við," sagði hún jafnframt.

Misnoti pólitíska aðstöðu

Þá kom fram í máli Áslaugar og annarra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks að sér þætti borgarstjóri vera að misnota sér aðstöðu sína til þess að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri með því að senda vikulegan póst sinn á netfangalista starfsmanna Reykjavíkurborgar. „Það er verið að fara yfir öll mörk í umræðunni og verið að misnota sér lista af starfsfólki sem einhvernveginn kom í arf með embættinu," sagði Áslaug.

Undir þetta tók Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokk sem sagði borgarstjóra „taka netföng þúsundum saman úr tölvukerfum Reykjavíkurborgar" og nota í pólitísku áróðursskyni.

Sagði hann borgarstjóra misnota aðstöðu sína sem framkvæmdastjóra Reykjavíkurborgar í pólitísku skyni. „Hann gerir ekki greinarmun á embætti borgarstjóra og stjórnmálamanninum Degi B. Eggertssyni hinsvegar. Það er ekki alveg sama borgarstjóraembættið og sú persóna sem gegnir þessu mikilvæga embætti," sagði Kjartan.

Borgarstjóri tók til máls og vísaði meðal annars til þess að sami háttur hefði verið hafður á í borgarstjórnartíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, núverandi þingmanns Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík.