Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir að þegar nálega þriðjungur veltu hverfur úr atvinnugrein getur vart verið um annað en hrun að ræða. „Staðan er sú sem og undanfarin ár ákaflega snúin og ljóst að bregðast þarf við ef ekki á illa að fara,“ segir formaðurinn í samtali við Morgunblaðið .

Samkvæmt nýjum tölum Félags bókaútgefenda, sem unnar eru upp úr tölum Hagstofu Íslands, sýna að 11% samdráttur varð í bóksölu árið 2016 miðað við sama ár í fyrra. Alls hefur því bóksala dregist saman um 31,32% frá árinu 2008. Veltutölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins sýna sömuleiðis samdrátt upp á 7,83%.

Egill segir að varað hafi verið við neikvæðum áhrifum af hækkun virðisaukaskatts á bækur á sínum tíma, og hann bendir á að íslensk bókaútgáfa sé ákaflega viðkvæm grein. Virðisaukaskattur á bækur var hækkaður úr 7% upp í 11% árið 2015.

Í ítarlegri úttekt á stöðu bókaútgáfu á síðasta ári kemur fram að sífellt þrengi nú af bókaútgáfunni. „Við erum í sífelldri samkeppni við aðra afþreyingu um tíma fólks. Þegar svo er þá er mjög mikilvægt að það sem kalla má rekstrarumhverfi útgáfunnar sé okkur hliðhollt,“ sagði Egill þá í samtali við Viðskiptablaðið .