Sala Hennes & Mauritz (H&M) féll um helming á öðrum ársfjórðungi fjárhagsársins 2020, eða frá 1. mars til 31. maí. Salan nam um 28,7 milljarða sænskra króna eða um 413 milljarða íslenskra króna á fjórðungnum samanborið við 57,5 milljarða sænskra króna á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu H&M segir að faraldurinn hafi haft mikil áhrif á fyrirtækið á ársfjórðungnum en um 80% af verslunum þess hafi verið lokaðar tímabundið um miðjan apríl. Netverslun jókst hins vegar um 36% í sænskum krónum á tímabilinu.

Sala H&M minnkaði um 30% frá 1.–13. júní miðað við sama tímabil í fyrra. Í dag eru enn um 900 verslanir H&M lokaðar eða um 18% af þeim 5058 verslunum sem fyrirtækið rekur.