Rannsóknir Bílgreinasambandsins sýna að sala á nýjum fólksbílum á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl jókst um 63,6% milli ára. Nýskráðir fólksbílar á þessu tímabili voru 5878 á móti 3594 á sama tíma fyrir ári. Er því um að ræða aukning um 2284 bíla.

Eins varð 74,2% aukning í nýskráningum fólksbíla í apríl samanborið við fyrra ár. Alls voru nýskráðir 2273 nýir fólksbílar í apríl á móti 1305 á síðasta ári.

Í skýrslu sem Greining Íslandsbanka gaf út í febrúar var spáð fyrir 22,5 milljarða króna fjárfestingu hjá bílaleigum á árinu. Er þá einungis átt við beinar fjárfestingar í bílum en þar til viðbótar koma dekkjakaup, varahlutakaup, eldsneytiskaup og fjárfestingar í húsnæði.

Til vitnis um uppgang bílaleiga þá fjórfaldaðist velta þeirra frá árinu 2008 til 2015. Veltan nam um 8 milljörðum króna 2008 en 33 milljörðum í fyrra. Það má því vera ljóst að umsvifin hafa haft töluverð áhrif á niðurstöður sambandsins.