Fyrirtækið Laugar ehf., sem rekur líkamsræktarstöðvar World Class hér á landi, tapaði 77,4 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 562,4 milljóna hagnað árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur félagsins námu 2.747 milljónum árið 2020, samanborið við 3.572 milljónir árið áður. Sala vöru og þjónustu dróst saman um 30,7% milli ára og nam rúmum 2.587 milljónum króna.

Rekstrargjöld samstæðunnar lækkuðu um 1,5% milli ára og námu 2.819 milljónum. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 304 milljónir frá fyrra ári og námu um 1.086 milljónum. Meðalfjöldi starfsmanna, umreiknaður í heilsársstörf, var 112 samanborið við 132 árið 2019. Húsnæðiskostnaður jókst um tæplega 300 milljónir milli ára og var tæplega 1,2 milljarðar árið 2020.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrif heimsfaraldursins á rekstur félagsins var umtalsverður. Félaginu var gert að loka æfingarstöðvum sínum í tæpa 5 mánuði á síðasta ári auk þess sem takmarkanir voru á starfseminni þegar þær opnuðu aftur.

„Félagið hefur reynt eftir fremsta megni að lágmarka áhrif faraldursins á rekstur félagsins og að vera tilbúið til að hefja fulla starfsemi á ný. Þar hafa efnahagsúrræði stjórnvalda nýst félaginu vel og nýtti félagið sér hlutabótaleiðina og lokunarstyrki.“

Eignir Lauga námu tæplega 2 milljörðum í árslok 2020. Eigið fé var 387 milljónir og skuldir 1,6 milljarðar. Viðskiptablaðið sagði nýlega frá því að Laugum ehf. hafi verið skipt upp þannig að fasteignir og skuldir tengdar þeim voru færðar yfir í nýtt félag, Í toppformi ehf. Eignir þess félags námu um 5,2 milljörðum í lok síðasta árs, eigið fé var 1,2 milljarða og skuldir 3,9 milljarðar. Samanlagðar eignir félaganna tveggja námu því 7,1 milljarði og eigið fé var samtals 1,6 milljarðar í lok árs.

Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir eiga 36,6% hvort í félögunum og Sigurður Leifsson fer með 26,8% hlut.