Hagnaður af rekstri Húsasmiðjunnar nam 284 milljónum króna á síðasta ári, sem er um 2% samdráttur frá 290 milljóna króna hagnaði ársins 2016. Sala félagsins jókst á milli ára um 7,7%, úr tæplega 16 milljörðum í 17,2 milljarða meðan kostnaðarverð seldra vara jókst minna eða um 4,9%, úr 10,5 milljarði í tæpa 11 milljarða.

Á sama tíma fór rekstrarkostnaðurinn úr 4,9 milljörðum í 5,6 milljarða, sem er aukning um 700 milljónir, eða 15,6%. Þar af jókst liðurinn laun, launatengd gjöld og ýmis starfsmannakostnaður um 16,3%, úr 2,8 milljörðum í 3,3 milljarða. Fjöldi ársverka á árinu 2017 var 391.

Annar rekstrarkostnaður félagsins jókst um 14,4%, úr rétt rúmlega 2 milljörðum í rétt rúmlega 2,3 milljarða. Eigið fé félagsins í árslok 2017 nam 2.705 milljónum króna en nam 2,4 milljörðum í ársbyrjun. Félagið er að fullu í eigu Bygma Ísland ehf. en Árni Stefánsson er forstjóri Húsasmiðjunnar.