SaltPay á Íslandi, sem hét áður Borgun, tapaði 1.372 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 1.208 milljónum árið 2020. Fjártæknifyrirtækið hefur því tapað nærri 2,6 milljörðum á síðustu tveimur árum. Hlutafé var aukið um 2.531 milljón á síðasta ári til að styrkja stöðu félagsins, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Hreinar rekstrartekjur lækkuðu um 14% á milli ára og námu nærri tveimur milljörðum króna „með batnandi afkomu undir lok ársins. Félagið segir að kórónuveirufaraldurinn og ferðaiðnaðurinn hafi haft mikil áhrif á tekjur félagsins líkt og árið 2020.

Í skýrslu stjórnar segir að félagið leggi áherslu á skilvirkni og gæði starfseminnar til að búa sig undir framtíðarvöxt. Undirbúningur að tilfærslu yfir í nýtt færsluhirðingarkerfi hafi gengið hratt fyrir sig. Þá var fjármálasvið félagsins endurskipulagt.

„Í tengslum við framangreindan flutning yfir í nýtt færsluhirðingarkerfi var nauðsynlegt að skerða þjónustustig sem hafði í för með sér að félagið missti úr viðskiptum nokkra af flóknari viðskiptavinum þess.“

Stjórnin gerir ráð fyrir að með „áframhaldandi ferli muni félagið ná jafnvægi árið 2024“. Stríðið í Úkraínu gæti haft áhrif á ferðaiðnaðinn en bent er á að horfur fyrir ferðalög til Íslands séu góðar.

Eignir félagsins námu 16,1 milljarði króna í lok síðasta árs, samanborið við 17,2 milljarða ári áður. Eigið fé nam nærri 5 milljörðum og eiginfjárhlutfall var því 30,9%. Markmið félagsins er að á hverjum tíma skuli eiginfjárhlutfallið ekki vera lægra en 17,3%.

Launin lækkuðu um þriðjung

Meðalfjöldi starfsmanna SaltPay á Íslandi var 140 á síðasta ári en stöðugildi voru 92 talsins í árslok, samanborið við 133 í lok árs 2020. Laun og launatengd gjöld námu 1.583 milljónum sem er um 912 milljónum minna en árið 2020 en það samsvarar um 36,6% lækkun.

Fram kemur að efsta móðurfélagið Salt Pay Co. hafi innleitt kaupréttaráætlun fyrir samstæðuna í heild í nóvember 2021. Kaupréttaráætlunin tekur til allra starfsmanna samstæðunnar. Salt Pay Co. veitti starfsmönnum SaltPay á Íslandi kauprétti í febrúar 2022 og hófst ávinnslutímabil í nóvember eða desember 2021.

SaltPay keypti Borgun vorið 2020 en við undirritun kaupsamnings var miðað við að kaupverð yrði 35 milljónir evra. Endanlegt kaupverð var þó 27 milljónir evra en verðið var lækkað sökum óvissu sem tengist Covid-farsóttinni .