Ekki hafa verið færri íbúðir í byggingu í fjögur ár, og samdráttur milli ára hefur aldrei mælst meiri, samkvæmt nýrri íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins .

3.523 íbúðir eru nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt talningunni, sem er ríflega fimmtungsfækkun milli ára. Samanlagt eru þær 4.610 og samdrátturinn sléttur fimmtungur á þeim svæðum sem talningin nær yfir, sem eru höfuðborgarsvæðið, nágrenni þess, og Norðurland, en á Norðurlandi mælist samdrátturinn 37%.

Mestur samdráttur mælist á íbúðum á byggingastigum 4 og 5, sem eru orðnar fokheldar, en þeim fækkaði um 23% milli ára, sem sagt er boða mikla fækkun íbúða á síðustu byggingastigum á næstunni. Íbúðir á fyrstu byggingastigum, að fokheldu, eru 1.270 á höfuðborgarsvæðinu og fækkar um 15% milli ára.

Yfirgnæfandi meirihluti íbúða í byggingu eru í fjölbýli, eða 92%, en restin skiptist jafnt á milli rað- og parhúsa annarsvegar og einbýlis hinsvegar, 4% hvort um sig.

Loks er því spáð að 2.135 fullbúnar íbúðir komi á markað á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess á þessu ári, og 1.790 á því næsta.