Ný verslun H&M í miðborginni er fyrsta skrefið til að blása lífi í og færa þungamiðju verslunar á svæðinu. Íslendingar sækja minna í miðbæ Reykjavíkur og síðustu tvö árin versla ferðamenn þar minna.

Með opnun verslunar H&M á Hafnartorgi í gær er fyrsti áfangi nýs verslunarkjarna í miðborg Reykjavíkur kominn í gagnið. Vonast forsvarsmenn verkefnisins til að með því snúist við sú þróun að Íslendingar sæki minna í miðborgina og ferðamenn á svæðinu versli minna.

Helgi Smári Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, sem rekur verslunar- og þjónusturými svæðisins segir verslun H&M langstærstu eininguna á svæðinu en aðrir hlutar opni snemma árs.

„Ætli þetta séu ekki rúmlega 2.000 fermetrar sem verslun H&M er að opna í núna, en það svæði sem við erum með þarna á Hafnartorginu er rúmlega 9.000 fermetrar. Þetta verður svo allt komið í gagnið fyrir páska, næstu opnanir verða frá febrúar fram til 15. apríl,“ segir Helgi Smári.

„Hafnarsvæðið og Austurhöfnin, með viðbótinni norðan Geirsgötunnar, sem fer undir verslun og þjónustu, verður um 15 þúsund fermetrar í heildina. Það má ekki minna vera til að ná inn krítískum massa. Með þessu erum við að gjörbreyta miðbænum með tilkomu verslana af gæðum sem hafa ekki áður verið á svæðinu. Þannig flyst þyngdarmiðjan í verslun og þjónustu á þessu svæði, því uppbyggingin er svo vel staðsett út frá bæði umferð og tengingum og stórri bílageymslu sem kemur undir allt svæðið í framhaldi af bílakjallaranum undir Hörpu.“

Færri Íslendingar sækja í svæðið

Neyslukönnun Gallup sem gerð er á hverju ári sýnir að frá árinu 2009 til ársins í ár hefur hlutfall þeirra Íslendinga sem sækja í miðborgina lækkað. Könnunin, sem gerð var í júní meðal íbúa landsins 18 ára og eldri og byggir á 1.300 svörum, sýnir að hlutfall þeirra sem heimsækja Laugaveginn sex sinnum eða oftar á ári hefur lækkað frá árinu 2009. Fór hlutfallið úr því að 52% aðspurða sögðust heimsækja verslunargötuna í miðbænum, af hvaða ástæðu sem er óháð verslun, niður í 42% aðspurðra nú.

Trausti Ágústsson hjá Gallup segir að tölurnar vísi einungis í Laugaveginn sjálfan, en þar sem þær beinast að Íslendingum gæti umferð hafa aukist um verslunargötuna með tilkomu aukins fjölda ferðamanna.

Sú aukning virðist þó ekki skila sér í aukinni verslun í miðbænum segir Helgi Hrannar Jónsson, framkvæmdastjóri Global Blue, en fyrirtækið sér um endurgreiðslur til ferðamanna vegna skattfrjálsrar verslunar.

„Ferðamennirnir eru fleiri og þeir virðast vera lengur niður í miðbæ með aukinni þjónustu og viðburðum, en þetta er hins vegar ekki að stuðla að því að þeir versli meira. Þar kemur inn gríðarlega sterkt gengi svo þeir hafa ekki efni á því að versla hér svo þeir virðast ekki ná að vega upp á móti því að Íslendingar koma síður í miðbæinn. Á milli áranna 2016 og 2017 var rúmlega 10% minnkun í verslun ferðamanna og frá 2017 og til þess sem af er þessu ári hefur hún minnkað um tæplega 10% á þessu svæðum,“ segir Helgi Hrannar.

„Þar koma inn allar þessar lokanir fyrir bílaumferð og þær miklu breytingar sem hafa verið á svæðinu af hálfu borgaryfirvalda, oft með handahófskenndum lokunum og opnunum svæða. Nýjasta dæmið er auðvitað að miðbærinn eins og hann er núna með öllum þessum krönum og raski sem er í gangi er ekki aðlaðandi fyrir verslun. Sem dæmi tilkynnti fyrr í vikunni verslun Iglo+Indi um að hún væri að loka á Skólavörðustígnum af þessum ástæðum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .