Arkitektastofan Arkþing hefur sameinast einni stærstu arkitektastofu á Norðurlöndunum, Nordic – office of Architecture. Samningur þessa efnis var undirritaður 1. júní síðastliðinn. Eftir sameininguna mun íslenski hlutinn breyta um nafn og heita Arkþing / Nordic ehf. Starfsmannahópurinn verður óbreyttur en 20 manns starfa hjá fyrirtækinu hér á landi.

Nordic er norsk arkitektastofa með starfsemi í Noregi, Danmörku og Bretlandi og eftir viðskiptin verða starfsmennirnir alls 220 talsins í fjórum löndum. Starfsemin á Íslandi verður áfram leidd af sömu aðilum og stýrt hafa Arkþingi síðustu ár. Í fréttatilkynningu um málið segir að nokkur aðdragandi hafi verið að ákvörðuninni en gott samstarf hafi myndast með Arkþingi og Nordic á síðustu árum.

Arkitektar beggja stofa hafa þannig komið sameiginlega að hönnun nokkurra nýrra verkefna á þessu tímabili. Einnig skipti máli við ákvörðunina að mikill samhljómur er í menningu fyrirtækjanna tveggja sem bæði eru gamalgrónar stofur á sínum heimamarkaði, Arkþing á Íslandi og Nordic í Noregi.

Áhersla beggja stofa hafi ávallt verið á gæði vinnunnar og þá hafa þær byggt upp sérþekkingu á ólíkum sviðum sem mun nýtast vel í sameinuðu fyrirtæki. Svo dæmi sé nefnt þá hefur Nordic mikla reynslu af hönnun flugstöðva og sjúkrahúsa og Arkþing hefur reynslu af hönnun hótela, slökkvistöðva, skrifstofubygginga, fjölbýlishúsa og einbýlishúsa.

Stærstu verkefni Arkþings um þessar mundir eru nýjar höfuðstöðvar Landsbankans og stór fjölbýlishús víðsvegar um borgina. Stærstu verkefnin sem Nordic vinnur nú að eru m.a. uppbygging stjórnarráðshverfisins í miðbæ Oslóar, stækkun á Gardermoen, aðalflugvelli Noregs, og nýtt háskólasjúkrahús í Stavangri.

Sigurður Hallgrímsson, stjórnarformaður og einn af stofnendum Arkþings segir það vera mjög mikinn heiður fyrir Arkþing að ganga til liðs við Nordic. „Við lítum á þetta sem stórt tækifæri fyrir okkur og með samruna þessara teiknistofa munu þær verði öflugri og betur í stakk búnar til að takast á við krefjandi verkefni til framtíðar,“ segir Sigurður sem segist bjartsýnn á langtímahorfur í íslenskum byggingariðnaði og á hönnunarmarkaði.

„Hafandi verið í rekstri í þetta langan tíma á Íslandi þá vitum við hins vegar að það koma alltaf sveiflur. Það er því gott fyrir stöðugleika í rekstri stofunnar að geta unnið að alþjóðlegum verkefnum ef samdráttur verður hér á landi. Þá er íslenski markaðurinn orðinn kröfuharðari en hann var.

Til þess að eiga möguleika á að fá stærstu og mest spennandi verkefnin þá þarftu að búa yfir ákveðinni þekkingu og reynslu. Án hennar kemstu í mörgum tilfellum ekki einu sinni að borðinu. Með því að verða hluti af öflugu alþjóðlegu arkitektafyrirtæki teljum við að við öðlumst ákveðið samkeppnisforskot á íslenskum hönnunarmarkaði.“

Eskild Andersen, arkitekt og forstjóri Nordic - office of Architecture, segir félagið afar ánægt með að stíga þetta skref með Arkþingi. „Þróunin á Norðurlöndunum hefur í auknum mæli verið sú að stofur renni saman og við það hafa orðið til stærri einingar sem ráða við stærri verkefni. Við höfum unnið að verkefnum í samstarfi við Arkþing á Íslandi síðustu ár og þetta er rökrétt framhald af þeirri vinnu og því samstarfi,“ segir Andersen.

„Á sama tíma hafa ný lög og reglugerðir, sem og auknar kröfur verkaupa, skapað þörf á breiðari kunnáttu og getu fyrirtækja í okkar geira til að sinna fleiri verkþáttum en áður. Þá er hugbúnaðarþróun og tækni farin að skipta miklu og það þarf gott bolmagn til að fylgja þeirri þróun. Við vitum að íslenskir arktitektar eru afar færir og við sjáum að starfsfólk Arkþings hefur öðlast mikla þekkingu með þátttöku í stórum verkefnum á síðustu árum.

Þekkingu sem mun nýtast Nordic í heild sinni vel. Það skipti einnig máli við þessa ákvörðun að einn af eigendum Nordic er íslenskur, Hallgrímur Þór Sigurðsson, sem búið hefur og starfað í Noregi og Danmörku síðustu 20 ár. Hallgrímur mun tryggja að það myndist góð tengsl á milli starfseminnar í ólíkum löndum og að við nýtum styrkleika og sérþekkingu okkar þvert á fyrirtækið.“