Frá því að hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir festu kaup á Johan Rönning árið 2003 hafa sjö fyrirtæki bæst við samstæðuna . Það er þekkt í viðskiptalífinu bæði hér heima og erlendis að sameiningar fyrirtækja reynast oft á tíðum erfiðar og hafa rannsóknir sýnt að 70-80% af sameiningum ná ekki að skapa þau samlegðaráhrif sem þeim var ætlað. Að mati Boga er mikilvægt að átta sig á því að ferlið sé ekki auðvelt þegar ráðist er í sameiningar fyrirtækja.

„Við reynum að skilgreina mjög vel fyrirfram hverju við ætlum að ná fram með sameiningum hverju sinni.

Í tilfelli Vatns og veitna ætla ég ekki  að segja að það hafi verið auðvelt að sameina tvö lítil fyrirtæki, sem voru með tiltölulega ólíkan kúltúr og mjög ólíkan bakgrunn, inn í okkar samstæðu þar sem við erum með þriðja kúltúrinn.

Við erum komin með ágætt sjálfstraust varðandi rekstur á svona einingum. Varðandi pípulagningarbransann þá höfðum við skýra sýn og sannfæringu um að við ættum erindi við þennan markað og að við gætum þróað gott og öflugt  fyrirtæki á grunni þessara ágætu minni fyrirtækja sem væri vel í stakk búið að þjóna pípulagningar-, verktaka- og veitubransanum.

Þar sem sýnin var skýr þá héldum við ótrauð áfram þó að hindranir hafi vissulega sýnt sig á leiðinni. Við vitum að stundum er nauðsynlegt að stíga eitt skref til baka til að komast tvö skref áfram og að stundum þarf að prófa sig áfram og leiðrétta svo mistök eða það sem kallað er „trial anda error“ upp á ensku.

Ég er gríðarlega stoltur af mínum hópi hjá Vatni og veitum. Það er komið saman fólk úr þremur mismunandi fyrirtækjum, stendur rosalega þétt saman og er að taka á móti viðskiptavinum sem eru ánægðir með það sem þeir eru að upplifa á nýjum stað. Þetta er ótrúlega gefandi og skemmtilegt.

Skipulag Fagkaupa tryggir svo að þrátt fyrir mikið álag á alla sem að þessu verkefni koma þá truflar það ekki kjarnastarfsemi annarra rekstrareininga. Allir í samstæðunni fá upplýsingar um það sem er að gerast og samfagna, en halda sínu striki með þjónustu á sína markhópa.“

Nánar er rætt við Boga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .