Eins og kannski gefur að skilja eru skiptar skoðanir milli þeirra Árna Stefáns Jónssonar formanns verkalýðsfélagsins Sameykis og Sverrir Jónssonar formanns samninganefndar ríkisins um gang kjaraviðræðna þeirra á milli að því er Morgunblaðið greinir frá.

Þannig segir Árni Stefán að það geti leitt til verkfalla ef kjaraviðræðurnar við ríkið komist ekki á skrið á næstu tveimur vikum, en kjaraviðræður flestra aðildarfélaga BSRB hafa gengið hægt.

„Það er ekkert launungarmál að það eru nokkur mál sem stoppa þetta töluvert,“ segir Árni, sem segir að farið verði að teikna upp mögulegar aðgerðir ef ekki komist skriður á næstu vikum.

„Það er til dæmis stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki og svokölluð leiðrétting launa milli opinbera og almenna markaðarins. Það var loforð sem við eigum frá 2016 og átti að vinnast núna og leiðréttast á
sex árum.“

Sverrir segir viðræðurnar vissilega hafa tekið tíma, en hann sé bjartsýnn á að markmið um að klára viðræðurnar á næstu vikum, ekki síðar en í febrúar, náist.

„Það er verið að breyta vinnutímaákvæðum sem eru 50 ára gömul sum hver og það eru bara allir að vanda sig og vilja gera þetta varlega. Það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Sverrir sem segir samhug um að bæði stytta vinnutíma og bæta og engin stór mál standi út af.

„Það er lítill ágreiningur. Það er verið að vinna að útfærslu á styttingu vaktavinnunnar. Stytting dagvinnunnar liggur fyrir. Launaliðurinn er að öllu leyti sambærilegur við það sem samið var um í lífskjarasamningnum.“