Samherji segir fullyrðingar Helga Seljan um töpuð störf í Namibíu vegna Samherja uppspuna að því er segir á vef fyrirtækisins . Vísar tilkynningin til orða fréttamannsins í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun, en í gærkvöldi var svo sýndur framhaldsþáttur af fréttaskýringarþættinum Kveik þar sem haldið var áfram að fjalla um Samherja og áhrif uppljóstrana um það í Namibíu.

Helgi Seljan svarar Samherja á facebook síðu sinni þar sem hann ávarpar Björgólf JóhannBsson sem ráðinn hefur verið tímabundið forstjóri Samherja vegna málsins og segist hann hafa fylgst með vandræðum hans við að höndla einfaldar staðreyndir um eignarhald fyrirtækisins sem hann nú stýrir.

Þá vísar hann í greinar úr namibískum fjölmiðlum frá því í maí 2018, þar sem sagt er að ákvörðun sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernard Esau, um að færa ríkissjávarútvegsfyrirtæki landsins, Fishor, kvóta að andvirði 1,8 milljarða namibískra dala, sem muni koma alþjóðlegu fyrirtæki til góða, leiði til þess að 1.200 störf í landi tapist.

Samherji bendir á að Samherji hafi einungis verið við veiðar á uppsjávartegundum, en úthlutunarreglum á þeim hafi verið breytt árið 2011 til að færa fjórðung af aflaheimildunum, aðallega frá suður afrískum fyrirtækjum, til namibískra. Leitað hafi verið til Samherja af samstarfsaðilum í landinu en aðrir sem fenu kvóta hafi samið við fyrirtæki frá öðrum löndum.

Eftir sem áður hafi 95% af veiddum uppsjávarafla verið sjófrystur, engin breyting hafi verið á því milli 2011 og 2012, og því hafi fjöldi starfa í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski haldist óbreyttur eftir breytingarnar. Í fréttinni sem Helgi vísar í er talað um að fyrirtækið sem hafi hætt að halda úti starfseminni í landi, Bidvest Namibia hafi verið með heimilisfesti í Namibíu en sé eitt þeirra fyrirtækja sem hafi misst kvótann í Namibíuvæðingu sjávarútvegsins eins og stefna sjávarútvegsráðherrans var kölluð.

Hér má sjá tilkynninguna á vef Samherja:

Í morgun fullyrti Helgi Seljan í morgunútvarpi Rásar 2 að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar frekari skýringar fylgdu þessari fullyrðingu Helga. Það kemur kannski ekki á óvart því um gróf ósannindi er að ræða.

Namibískur sjávarútvegur er fjölbreyttur og eru margar ólíkar tegundir veiddar við strendur landsins. Félög tengd Samherja hafa einungis tekið þátt í uppsjávarveiðum í namibísku efnahagslögsögunni og er þar aðallega um að ræða veiðar á hestamakríl.

Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Ákveðið var að færa um 25% af aflaheimildum í uppsjávarfiski í hendur namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá fyrirtækjum í Suður-Afríku sem höfðu haft heimildirnar. Eftir úthlutun aflaheimilda leituðu ákveðnir aðilar í namibískum sjávarútvegi eftir samstarfi við félag tengt Samherja um veiðar á þeim aflaheimildum sem þeir höfðu yfir á að ráða. Önnur namibísk félög, sem fengu úthlutað aflaheimildum, sömdu við útgerðarfélög frá Kína, Hollandi og Rússlandi.

Alls voru 95% af veiddum afla í uppsjávarfiski fryst úti á sjó. Engin breyting varð á þessu milli áranna 2011 og 2012. Það má því segja að fjöldi starfa í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski í  namibískum sjávarútvegi hafi haldist óbreyttur þótt störfin hafi flust á milli fyrirtækja og skipa eftir að breytingar urðu á úthlutun heimilda. Það er því ljóst að sú fullyrðing að „þúsund störf“ hafi tapast í namibískum sjávarútvegi vegna innkomu félags sem tengist Samherja, er þvættingur.

Hlutfall Namibíumanna í áhöfnum þeirra skipa sem félög tengd Samherja hafa gert út í namibísku efnahagslögsögunni hefur fjölgað jafnt og þétt og er í dag um 60%. Sem dæmi voru hundrað manns í áhöfn Heinaste. Af þessum hundrað voru að jafnaði fjórir áhafnarmeðlimir með íslenskt ríkisfang en aðrir í áhöfninni frá Namibíu og Austur-Evrópu.

Að framansögðu virtu er ljóst að Helgi Seljan sagði ósatt í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og eru ummæli hans eingöngu til þess fallin að valda Samherja tjóni. Ummælin sýna kannski best hversu frjálslega fréttamenn Ríkisútvarpsins fara með staðreyndir.“