Afkoma Play var neikvæð um 1,8 milljónir dala eftir skatta, eða um 231 milljón króna, á fyrri helmingi ársins en flugfélagið hóf flugrekstur ekki fyrr en á síðustu dögum fjárhagstímabilsins og nær aðeins til fyrstu þriggja farþegafluga félagsins.

„Árshlutauppgjör annars ársfjórðungs endurspeglar vel heppnaða byrjun flugrekstrar PLAY. Handbært fé frá rekstri er meira en áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem meðal annars kjör færsluhirða eru betri en ráðgert var. Betri kjör má rekja til sterkrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins og vel heppnuðu upphafi rekstrar,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Jafnframt segir að félagið hafi lagt áherslu á tæknilega innviði, þjónustugetu og að afla nauðsynlegra rekstrarleyfa. „Eftir að flugrekstrarleyfið var í höfn hófst sala farmiða sem gekk vonum framar og sumaráætlun félagsins var vel heppnuð.“

Þá segir að forgangsmál næstu mánaða verður undirbúningur fyrir flug til Norður-Ameríku. Félagið lagði inn beiðni fyrir tveimur vikum síðan til bandarískra flugmálayfirvalda um heimild til farþegaflutninga.

„Niðurstöður annars ársfjórðungs sýna vel að allt er á áætlun hjá PLAY fyrir VIA viðskiptamódelið (tengiflug) sem til stendur að hefjist vorið 2022.“

Laun og launatengd gjöld Play námu 3,1 milljón dala eða um 393 milljónum króna en meðalfjöldi starfsmanna á fyrri árshelmingi voru 38,7.  Í dag starfar 131 starfsmaður hjá Play en uppbyggingin félagsins mun krefjast 150 til 200 starfsmanna til viðbótar.
Flugfélagið aflaði nærri 6 milljörðum króna í lokuðu hlutafjárútboði í apríl og um 4,3 milljarða í opnu hlutafjárútboði fyrir skráningu á First North markaðinn í lok júní.

Eignir félagsins námu 125,9 milljónum dala, eða um 16 milljörðum króna, í lok júní. Þar af var eigið fé um 11 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið því um 69%.

Flugfélagið aflaði nærri 6 milljörðum króna í lokuðu hlutafjárútboði í apríl og um 4,3 milljarða í opnu hlutafjárútboði fyrir skráningu á First North markaðinn í lok júní.

17.300 farþegar í ágúst

Flugfélagið tilkynnti jafnframt um farþegatölur fyrir ágústmánuð en 17.300 farþegar flugu með Play í ágúst, samanborið við 9.899 farþega í júlí. Sætanýting jókst úr 41,7% í 46,4% milli mánaða. Félagið væntir þess að sætanýting í september aukist enn frekar.

Í tilkynningu Play segir að fyrsti heili mánuður í flugrekstri hafi verið vel heppnaður en tíðar breytingar á ferðatakmörkunum af hálfu stjórnvalda og ný bylgja kórónuveirunnar hafði þó óneitanlega neikvæð áhrif á eftirspurn meðal íslenskra farþega.

„Viðskiptavinir nýttu sér hins vegar sveigjanlega breytingaskilmála og endurskipulögðu ferðalög sín í nokkrum mæli. Fyrir PLAY þýddi þetta flutning en ekki tap á tekjum.“

Viðræður um tíundu vélina langt á veg komnar

Fram kemur að flugfélagið hafi fyrr í mánuðinum undirritað tvær viljayfirlýsingar við tvo alþjóðlega flugvélaleigusala. Þessar ráðstafanir stækki flota félagsins úr þremur flugvélum í níu fyrir sumarið 2023. Auk þess eru viðræður um leigu á tíundu flugvélinni sagðar langt á veg komnar.

Fyrri viljayfirlýsingin er vegna tveggja nýrra A320neo flugvéla af 2020 árgerðinni, sem verða afhenta á fyrsta fjórðungi næsta árs. Seinni viljayfirlýsingin er vegna fjögurra nýrra véla sem koma í rekstur vorið 2023, þar af þrjár A320neo flugvéla og ein A321neo.

„Kjör á þessum samningum eru betri en gert var ráð fyrir í viðskiptaáætlunum félagsins.“ Í fjárfestakynningu Play fyrir skráninguna í júní kom fram að félagið sé með fyrstu þrjár vélarnar á langtímasamningi og á 24% lægra leiguverði heldur í samanburði við verðlagningu fyrir Covid.