Rekstur TM hefur gengið vel undanfarin misseri. Á fyrst sex mánuðum ársins nam hagnaður TM ríflega 3,1 milljarði króna. Þegar félagið sameinaðist Kviku banka í lok mars hafði hlutabréfaverð félagsins hækkað um 80 prósent frá byrjun árs 2020.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir að sameiningin hafi kannski ekki breytt miklu í grunnrekstri tryggingafélagsins, „en TM-samstæðan er mikið breytt, þar sem Lykill sameinaðist Kviku og sú starfsemi er ekki lengur hluti af TM. Þá hefur ýmsum þáttum sem snúa að þróun og rekstri verið útvistað til Kviku, þannig að félagið er breytt að því leyti. Við sjáum mikil tækifæri á sameiginlegri þróun Kvikusamstæðunnar með mörg sterk vörumerki og fjártæknifélög innanborðs,“ segir Sigurður.

Spurður hvað hafi einkennt reksturinn hjá TM fyrstu sex mánuði ársins svarar Sigurður: „Það hafa verið mjög hagstæðar aðstæður á fjármálamörkuðum sem endurspeglast í mjög góðri ávöxtun af fjárfestingareignum félagsins. Þá hefur tryggingareksturinn einnig verið mjög góður og samsett hlutfall sögulega lágt þvert á tryggingaflokka. Rekstrarkostnaður TM er byrjaður að lækka í kjölfar sameiningarinnar, þar sem samlegðaráhrif eru að koma fram. Við erum mjög bjartsýn á framhaldið, eins og sést í nýútgefinni spá til næstu 12 mánaða.“

Birta meiri upplýsingar

Eftir sameininguna við Kviku banka hafa fjárfestar og greinendur tekið eftir því að upplýsingagjöf um tryggingareksturinn hefur ekki verið eins og áður. Spurður hvort það standi til að birta fleiri lykiltölur í næstu uppgjörum Kviku banka svarar Sigurður: „Já, ég finn fyrir eftirspurn eftir því. TM birti mjög ítarlegar tölur þegar félagið var skráð á markað og við höfum fundið fyrir því að markaðsaðilar sakna ýmissa upplýsinga sem áður voru birtar. Við munum taka það til greina næst þegar við birtum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .