Útgöngusamningur Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, úr Evrópusambandinu, var felldur í breska þinginu í kvöld með 432 atkvæðum gegn 202, en þau 230 atkvæði sem munar eru mesti munur sem nokkur bresk ríkisstjórn hefur tapað með.

Rúmur þriðjungur þingmanna Íhaldsflokksins, flokks May, kaus gegn samningnum með stjórnarandstöðunni. Jeremy Corbyn, leiðtogi verkamannaflokksins, lang stærsta stjórnarandstöðuflokksins, lagði í kjölfarið fram vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni, sem kosið verður um á morgun.

Í frétt Financial Times um málið segir að búist sé við að stjórn May haldi velli, þar sem hvorki Íhaldsflokkurinn né hinn norður-írski lýðræðislegi sambandsflokkur (Democratic Unionist), sem varið hefur stjórnina falli, vilji fara í þingkosningar að svo stöddu.

Áfram óvissa um Brexit
Sem fyrr er allskostar óvíst hvernig útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verður háttað. Möguleikar sem nefndir hafa verið eru allt frá þingkosningum og frestsbeiðni til sambandsins til að semja upp á nýtt, til þjóðaratkvæðis um framhaldið, þar sem sá valkostur að hætta alfarið við útgönguna gæti endað á kjörseðlinum.