Í nýsamþykktum búvörulögum er kveðið á um að skipaður verði samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga. Í lögunum er jafnframt kveðið á um tryggja skuli aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal vinnu hópsins lokið eigi síðar en á árinu 2019. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

„Í samræmi við þetta hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óskað eftir að eftirfarandi aðilar tilnefni fulltrúa í 7 manna samráðshóp, þ.e.  Alþýðusamband Íslands/BSRB, Bændasamtök Íslands (2 fulltrúar), Neytendasamtökin, Samtök afurðastöðva, Samtök atvinnulífsins.

Formaður samráðshópsins verður Guðrún Rósa Þorsteinsdóttir forstöðumaður rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og er hún skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu,“ segir í tilkynningunni.

Nýlega benti Félag atvinnurekenda á að fresturinn til að skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga hafi runnið út 18. október.