Samrunar félaga gætu orðið umtalsvert kostnaðarsamari verði félagaréttarlöggjöfin túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan. Sú var raunin í tveimur nýlegum dómum í héraði en þar reyndi þó á önnur atriði. Sérfræðingar á sviðinu vonast til þess að venja, sem myndast hefur, haldi gildi sínu en ellegar að lögunum verði breytt.

Nýverið fjallaði Viðskiptablaðið um aðalmeðferð í máli þrotabús Sameinaðs sílikons hf. gegn EY og fyrrverandi endurskoðanda félagsins. Þar krafðist þrotabúið bóta úr hendi stefndu, meðal annars þar sem ranglega hefði verið staðið að samruna þess við félag að nafni Stakksbraut 9 ehf. Aðalmeðferð áþekks máls, þar sem ÍAV hf. var til sóknar en sömu aðilar til varnar, fór fram um svipað leyti.

Báðum málunum lauk á sama hátt, með sýknu stefndu. Aftur á móti vekja dómarnir tveir áhugaverðar spurningar um framhaldið fyrir önnur ótengd félög. Í aðilaskýrslu endurskoðandans fyrir dómi kom fram að hann hefði ekki endurskoðað sameiginlegan efnahags- og rekstrarreikning við samrunann heldur aðeins sannreynt að hann byggðist á árshlutareikningum félaganna tveggja.

Venjan varað í áratugi

Í lögum um einkahlutafélög og hlutafélög er að finna ákvæði um að við samruna tveggja félaga skulu félagsstjórnir hlutast til um að gerður sé „endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikingur.“ Enn fremur segir að ákvæði laga um ársreikninga gildi „eftir því sem við á“ um upphafsreikninginn og skýringar hans. Í skýrslu endurskoðandans kom einnig fram að fyrirtækjaskrá hefði við samruna tekið gildar áritanir með því orðalagi sem hann notaði og jafnvel áritanir um að reikningur hefði ekki verið endurskoðaður. Stór hluti samruna varðar enda félög sem eru ekki endurskoðunarskyld samkvæmt ársreikningalögum og þá eru árshlutareikningar ekki endurskoðunarskyldir.

Í öðrum dóminum segir að samrunareikningurinn hafi „samkvæmt afdráttarlausu orðalagi laganna [átt] að vera endurskoðaður“. Þar sem það hafi ekki verið gert sé þar á ferð saknæm háttsemi sem gæti mögulega orðið grundvöllur bótaskyldu. Í máli þrotabúsins var bótum hafnað, þar sem orsakatengsl þóttu ekki sönnuð, en í máli ÍAV var lagt mat á það í löngu máli hvað forstjóri félagsins vissi og vissi ekki um rekstur Sameinaðs sílikons. Á endanum var sýknað þar líka, þar sem ekki var talið að ársreikningar hefðu haft úrslitaáhrif á það hvort ÍAV hefði slitið viðskiptasambandi við gagnaðila sinn.

Þótt téðir dómar hafi ekki varðað beint hvort skortur á endurskoðun stæði samruna í vegi, heldur hvort slíkt gæti orðið tilefni stofnunar bótaskyldu sérfræðings, er áhugavert að velta því upp hvaða áhrif það hefur ef fyrirtækjaskrá leggur fyrri venju og fylgir þess í stað lögunum samkvæmt orðanna hljóðan.

Viðskiptablaðið beindi fyrirspurn til Skattsins þar sem spurt var hvort fyrirtækjaskrá hefði slíkt í hyggju og þá hvenær mætti búast við breyttri framkvæmd. Í svari Skattsins kom fram að embættinu væri kunnugt um dómana tvo og að verið væri að fara yfir framkvæmdina. Breytingar á henni yrðu gerðar í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .