Samruni bílaframleiðendanna Fiat Chrysler og PSA Group, sem m.a. framleiðir Peugeot bifreiðar, er á lokametrunum og einungis á eftir að fá samþykki hluthafa fyrir samrunanum áður en hann gengur endanlega í gegn. BBC greinir frá.

Að því gefnu að hluthafar samþykki samrunann, verður til fjórði stærsti bílaframleiðandi heims. Tvö ár eru síðan fyrirtækin hófu fyrst samrunaviðræður. Eftir sameininguna verða bifreiðavörumerki á borð við Peugeot, Citroen, Vauxhall, Fiat, Jeep og Chrysler öll framleidd innan fyrirtækisins, sem hefur fengið nafnið Stellantis.

Samrunasamningurinn er metinn á um 52 milljarða dollara og verða alls fjórtán bifreiðavörumerki framleidd innan veggja Stellantis. Forsvarsmenn fyrirtækjanna gera ráð fyrir að samruninn muni endanlega ganga í gegn undir lok mars.