Grundvallarmunur er á að veita flugfélaginu Icelandair ríkisábyrgð og að veita samstæðunni Icelandair Group slíka aðstoð. Þetta segir í umsögn ferðaskrifstofunnar Atlantik ehf. við þingmál er varða umrædda ríkisábyrgð á þrautavaralánveitingu til félagsins.

„Margir geta sammælst um að flugfélagið Icelandair geti uppfyllt skilyrði ríkisstyrks og ríkisábyrgðar á lánalínu við núverandi aðstæður. Við hjá Atlantik myndum styðja slíka ákvörðun stjórnvalda til handa flugfélaginu Icelandair í ljósi aðstæðna,“ segir í umsögninni sem Gunnar Rafn Birgisson, stjórnarformaður og eigandi Atlantik ehf., ritar undir.

Samstæða Icelandair og flugfélagið Icelandair séu hins vegar ekki einn og sami hluturinn. Samstæðan telji minnst tíu félög sem séu í mismunandi rekstri, sum tengdu flugi en önnur í samkeppnisrekstri í ferðaþjónustu innanlands. Í umsögninni eru talin upp Flugfélag Íslands ehf., Flugleiðahótel ehf., Iceland Travel ehf., FERIA ehf., Fjárvakur -Icelandair Share ehf. og Loftleiði Cabo Verde ehf. svo dæmi séu tekin.

„Þessi armur samsteypunnar fyrir utan flugfélagið getur seint talist eða verið skilgreindur sem þjóðhagslega mikilvægur, enda félögin sem um ræðir hvert um sig í mörgum tilfellum markaðsráðandi og/eða markaðsleiðandi í samkeppni á innanlandsmarkaði. Það væri í með öllu óeðlilegt ef þau eiga nú að njóta frekari stuðnings ríkisins umfram fjölmörg önnur félög hér á landi í sambærilegum rekstri,“ segir í umsögninni.

Þar er enn fremur lagt til að stjórnvöld eigi ekki aðlaga sig að rekstrarlíkani félagsins heldur sé breytinga þar þörf til að tryggja rekstur þess. Skilja þurfi algerlega á milli þeirra fyrirtækja innan samstæðunnar sem njóti góðs af aðstoð ríkisins. Önnur niðurstaða myndi þýða að önnur fyrirtæki á markaði, það er þau sem ekki eru innan samsteypu Icelandair, myndu þurfa að hefja endurreisn sína á allt öðrum og verri stað.

„Spurningin er; Þarf ekki skilyrði af hálfu Alþingis sem tryggja áframhaldandi samkeppni í íslenskri ferðaþjónustu? Eru samkeppnislög sett til hliðar í þessum aðstæðum og þar með öðrum fyrirtækjum fórnað í greininni, öðrum félögum en þeim sem tilheyra fyrirtækjasamsteypunni Icelandair Group?“ segir í umsögninni.

„Tilgangurinn að bjarga flugfélaginu getur aldrei helgað meðalið ef það leiðir af sér þessa mismunun milli allra þessarra fyrirtækja sem hafa eignarhald innan Icelandair Group annarsvegar og allra hinna fyrirtækjanna sem eru í samkeppni innan ferðaþjónustunnar hinsvegar.“