Þýska veffyrirtækið 1xInternet opnaði á dögunum skrifstofu hér á landi en það hefur fjölmarga þekkta viðskiptavini. Framkvæmdastjórinn starfar í stjórn opins hugbúnaðar með fulltrúum stórfyrirtækja.

Þó að félagið 1xInternet í Þýskalandi hafi ekki látið mikið fyrir sér fara í umræðunni hér á landi hefur það þjónað og hjálpað fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum við að byggja upp vefkerfi sín. Meðal erlendra viðskiptavina má nefna þekkt vörumerki eins og Jaguar/Landrover og Jägermeister en einnig hefur fyrirtækið byggt upp vefi tveggja þýskra fylkja og fjölmargra stofnana og sveitarfélaga.

Auk nýja dótturfélagsins á Íslandi er það með félag og skrifstofu í Conil á Spáni en móðurfélagið er með skrifstofur í bæði Berlín og Frankfurt og vinnustöðvar til að mynda í Búdapest, München, Barcelona og Ósló.

Bjarney Sonja Ólafsdóttir Breidert, eða Baddý eins og hún er kölluð, er framkvæmdastjóri félagsins sem hún stofnaði ásamt manni sínum, Dr. Christoph Breidert, árið 2013. Þó að félagið hafi lengi verið með starfsemi hér á landi hefur það nú stofnað dótturfélag á Íslandi og ráðið til sín framkvæmdastjóra hér.

Hún situr jafnframt í 15 manna stjórn Drupal Association með nokkrum af helstu leiðtogum tæknimála hjá fyrirtækjum sem nota kerfið, þar á meðal frá Johnson & Johnson, Pfizer, Accenture og indverska risafyrirtækinu Tata Consulting. Stjórnin heldur utan um samnefndan opinn hugbúnað en um 2,3% af öllum vefsíðum í heiminum eru keyrða á Drupal-kerfinu, eða um milljón síður.

Baddý segir opinn hugbúnað henta sérstaklega vel fyrir stærri fyrirtæki og stofnanir. „Með því að velja opinn hugbúnað eru fyrirtæki ekki háð einhverju einu tölvufyrirtæki um að gera breytingar á vefjum sínum, heldur geta þau hringt í hvern sem er. Drupal er þekkt fyrir að vera sérlega sveigjanlegt og öruggt, en það er annað stærsta CMS kerfi í heiminum, það er kerfi sem heldur utan um innihald vefkerfa, á eftir Wordpress,“ segir Baddý.

„Við höfum verið að vinna með þetta kerfi síðan 2007, en fyrirtækið byrjaði þannig að eftir að við hjónin höfðum kynnst meðan ég var í meistaranámi í tækniháskólanum í Vín, komum við hingað til Íslands þegar ég var að fæða dóttur mína. Þá áttuðum við okkur á því að hér væri stór markaður fyrir Drupal þjónustu því margir væru að vinna með það.

Með sérfræðiþekkingu okkar höfum við í raun verið framhald af þeirra eigin tölvudeildum, þar sem við hjálpum annaðhvort fyrirtækjum að setja vefina upp eða færum þá á næsta stig. Við byrjum á því að setja upp og útlista þörfina, hvaða efni verður á vefjunum og þá má nefna mikilvæg atriði eins og leitarvélarnar sem er því miður oft ekki nógu vel hugsað út í, til dæmis hvort þær ráði við beygingarmyndir í íslensku, hvernig leitarniðurstöður eru settar upp og svo framvegis.“

Félagið hefur mjög fjölbreyttan hóp um 35 starfsmanna frá 15 þjóðlöndum. „Við höfum verið að vaxa um svona 10% á ári frá stofnun og bætt við okkur svona þremur til fimm starfsmönnum árlega. Núna er ársveltan í kringum 300 milljónir króna, og hagnaðarhlutfallið hefur verið 10 til 15%, þó það fari eftir því hve mikið við fjárfestum í nýrri þekkingu hjá starfsfólkinu sem þarf alltaf að gera, nú síðast í React-tækninni,“ segir Baddý sem stefnir áfram að jöfnum og stöðugum vexti.

„Við sjáum mikla þörf hjá stórum fyrirtækjum og þau kunna að meta þýska fagmennsku. Á móti kemur að það sem er svo frábært við íslenska hugsunarháttinn sem við höfum getað boðið upp á í Þýskalandi er þetta eðli að einhenda sér í hlutina og klára þá. Það má segja að okkur takist vel að samþætta íslenskan sveigjanleika og viðbragðshraða við þýskt skipulag og úthugsaða aðferðafræði.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .