Stofnfundur Samtaka fjártæknifyrirtækja var haldinn í dag að því er kemur fram í fréttatilkynningu en tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna þeirra fjártæknifyrirtækja á Íslandi sem með nýsköpun í fjármálageiranum vinna að því breyta og bæta núverandi umhverfi fjármálakerfisins.

Stjórn samtakanna skipa Eva Björk Guðmundsdóttir hjá Meniga sem verður formaður þeirra, Sverrir Hreiðarsson hjá Aur (Aur) og Ellert Arnarson hjá Framtíðinni. Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga hefur verið skipaður talsmaður Samtaka fjártæknifyrirtækja.

Stofnfélagar í Samtökum fjártæknifyrirtækja eru Aur, Framtíðin, Memento, Meniga, Kóði og RB. Aðild að samtökunum geta átt fyrirtæki þar sem meginstarfsemi snýr að nýsköpun, nýtingu og þróun á tæknilausnum á sviði fjármálaþjónustu. Eva Björk Guðmundsdóttir, formaður samtakanna, hvetur öll íslensk fjártæknifyrirtæki til að sækja um aðild að samtökunum.

Þá segir jafnframt að stakkaskipti séu að verða í samkeppnisumhverfi fjármálamarkaða á næstu árum og ráði þar mestu ný greiðsluþjónustutilskipun Evrópusambandsins. Þá séu tækninýjungar að ryðja burt aðgangshindrunum sem til þessa hafa staðið í vegi fyrir innkomu nýrra fyrirtækja á fjármálamarkaðinn.

Samkvæmt Georg Lúðvíkssyni, talsmanni samtakanna eru neytendur þegar farnir að sjá aukna stafræna fjármálaþjónustu frá nýjum fyrirtækjum á markaði. Framboð fjármálaþjónustu utan bankanna eigi eftir að aukast til muna í kjölfar tilskipunar ESB og kostnaður neytenda og fyrirtækja lækka. Almennt sé talið að evrópskir viðskiptabankar geti orðið af allt að fjórðungi tekna sinna á næstu árum vegna þessa en á sama tíma séu fjölmörg tækifæri fyrir banka að opnast og þróast – ekki síst með samstarfi við leiðandi fjártæknifyrirtæki um nýjar lausnir.