Skandinavíska flugfélagið SAS hefur fellt niður 2000 flugferðir í marsmánuði sem samsvarar um 8% af heildarferðum félagsins í mánuðinum. Þetta kemur fram í frétt Reuters þar sem vitnað í ummæli forsvarsmanna SAS við norska ríkisútvarpið NRK.

Ákvörðunin kemur í kjölfarið á áhrifa kórónuveirunnar á eftirspurn eftir flugi. Fjölmörg flugfélög hafa á síðustu dögum fellt niður flugferðir vegna útbreiðslu veirunnar. Sem dæmi felldi Icelandair niður um 80 flug í síðustu viku og þá hefur Lufthansa samsteypan fellt niður 7.100 flug sem samsvarar um 25% af áður áætluðu heildarframboði félagsins í mánuðinum.