Sautján umsóknir bárust um tvö laus embætti dómara við Endurupptökudóm. Í hópi umsækjenda eru lögmenn, saksóknari, lögreglustjóri og háskólakennarar.

Endurupptökudómur tekur til starfa 1. desember næstkomandi en hann mun leysa endurupptökunefnd af hólmi. Honum er ætlað að leysa þann vanda sem í því fólst að stjórnsýslunefnd hafi verið fólgið það hlutverk að endurskoða niðurstöður dómstóla. Þrír embættisdómarar, einn af hverju dómstigi, munu skipa dóminn auk tveggja skipaðir að undangenginni auglýsingu. Við meðferð hvers máls munu tveir embættisdómarar sitja í því auk eins sem skipaður er samkvæmt auglýsingu.

Umsækjendur úr akademíunni eru tveir, þeir Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Eiríkur Elís Þorláksson, dósent og forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, sækir einnig um og sömu sögu er að segja af Finni Þór Vilhjálmssyni, saksóknara hjá Héraðssaksóknara. Aðrir umsækjendur eru starfandi lögmenn.

Lista umsækjenda má sjá hér að neðan.

  • Árni Ármann Árnason, lögmaður
  • Árni Vilhjálmsson, lögmaður
  • Ásgeir Jónsson, lögmaður
  • Eiríkur Elís Þorláksson, dósent og forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík
  • Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor
  • Finnur Vilhjálmsson, saksóknari
  • Guðrún Björg Birgisdóttir, lögmaður
  • Haukur Örn Birgisson, lögmaður
  • Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður
  • Jón Auðunn Jónsson, lögmaður
  • Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri
  • Reimar Pétursson, lögmaður
  • Sigurður Jónsson, lögmaður
  • Stefán Geir Þórisson, lögmaður
  • Tómas Hrafn Sveinsson, lögmaður
  • Tómas Jónsson, lögmaður
  • Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður