Seðlabanki Íslands mun hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði en þetta ákvað peningastefnunefnd á aukafundi í gær. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Seðlabankanum.

„Horfur eru á að útbreiðsla COVID-19, aðgerðir til að hefta sjúkdóminn og efnahagslegar afleiðingar hans muni kalla á verulega aukningu útgjalda ríkissjóðs. Útlit er því fyrir að afkoma ríkissjóðs versni í ár og að hann þurfi að afla sér töluverðs lánsfjár með útgáfu ríkisbréfa,“ segir þar enn fremur.

Verði ekkert að gert mun það vafalaust draga úr lausafé í umferð og hækka ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa segir bankinn. Það mun hafa truflandi áhrif á miðlun peningastefnunnar og er því gripið til þessarar aðgerðar.

Í tilkynningunni segir að nánari upplýsingar muni verða birtar síðar.