Seðlabanki Kína hefur ákveðið að lækka bindiskylduna í fimmta sinn síðastliðið ár. Lækkunin tekur gildi í tveimur þrepum, 15. og 25. Janúar, og mun samanlagt nema einu prósentustigi. Við það mun losna um 800 milljarða kínverskra Júana, jafngildi um 13,7 þúsund milljarða íslenskra króna. Reuters segir frá .

Töluverðar blikur eru á lofti í kínversku hagkerfi um þessar mundir, sem stendur frammi fyrir fallandi innlendri eftirspurn samhliða nýálögðum tollum á útflutning til Bandaríkjanna.

Hlutabréfamarkaðir víðsvegar um heim féllu í gær eftir að Apple sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun vegna lakrar sölu í Kína, en náðu sér að einhverju leyti aftur á strik í dag vegna vona sem bundnar eru við komandi viðræður Kínverja og Bandaríkjamanna í tollamálum.

Þá sýndu nýlegar hagtölur samdrátt í iðnframleiðslu Kína í desember í fyrsta sinn í yfir tvö ár.

Bindiskyldan er í dag 14,5% á stórar fjármálastofnanir, en 12,5% á litlar. Það mun sem fyrr segir lækka um eitt prósentustig fyrir mánaðarlok, en óhætt er að segja að eftir sem áður verður það hátt í alþjóðlegum samanburði.