Áætlað er að skýrsla Seðlabankans um 500 milljón evra þrautavararlánið sem Kaupþing fékk í október 2008 frá bankanum, verði birt eftir áramót eða í janúar að því er segir í svari bankans til Morgunblaðsins.

Lánveitingin var efni samtals þáverandi bankastjóra Seðlabankans, Davíðs Oddssonar, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sem Viðskiptablaðið hefur greint frá , en þar sammælast þeir um að vegna mikillar hættu á að lánið fáist ekki endurgreitt að gott allsherjarveð fáist fyrir það.

Fengu andvirði 670 milljóna evra fyrir 500 milljóna lán

Seðlabankinn fékk því 98,89% veð í danska bankanum FIH, sem kom því í hans hlut í kjölfar hruns Kaupþings, en danski bankinn var síðan seldur þann 19. september árið 2010 fyrir andvirði 670 milljónir evra.

Síðan hefur komið í ljós að kaupendur bankans höfðu mun betri samningsstöðu gagnvart Seðlabankanum um kaupin vegna leka úr danska stjórnkerfinu og þrýstings þaðan á sölu bankans sem þáverandi stjórn Seðlabankans virðist hafa látið undan.

Seðlabankinn samdi af sér sem rýrði söluverðið

Því hafi söluverð bankans orðið umtalsvert lægra en raunverulegt virði hans, því kaupendurnir gátu komið inn ákvæðum sem gerðu þeim kleyft að rýra virði bankans einhliða með niðurfærslu eigna.

Skýrsla Seðlabankans um lánveitinguna og söluferlið  er sögð mjög langt á veg komin í svari bankans, sérstaklega kaflarnir um það síðarnefnda, en mun styttra í þeim sem varða lánveitinguna „m.a. vegna mikilla anna þeirra sem þurfa að koma að verkinu,“ segir í svarinu.