Seðlabankinn hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 10 í fyrramálið til að kynna niðurstöður nýlegra funda peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar.

Þá á að birta frétt um niðurstöður peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar á vef Seðlabankans eftir klukkan 8:00 í fyrramálið.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu og Haukur Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs, munu kynna ákvarðanir nefndanna og svara spurningum á fundinum.

Seðlabankinn flýtti vaxtaákvörðun sem átti upphaflega að fara fram á morgun um viku í síðustu viku vegna stöðunnar í efnahagslífinu. Þá voru stýrivextir lækkaðir úr 2,75% í 2,25% og bindiskylda lækkuð á bankana. Nú virðist Seðlabankinn ætla að grípa til frekari aðgerða. Fjármálstöðugleikanefnd tekur meðal annars ákvörðun um hve háa eiginfjárauka leggja eigi á banka en kallað hefur verið eftir því að þeir verði lækkaðir í ljósi aðstæðna í efnahagslífinu.

Seðlabankar og stjórnvöld um heim allan hafa brugðist við til að reyna að draga úr efnahagsáhrifum sem aðgerðir til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar hafa í för með sér. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í Bítinu í morgun að líkur væru á að yfir 100 milljarða halli yrði á ríkissjóði í ár. Staðan væri alvarleg og mikilvægt væri að bregðast strax við. Betra væri að gera of mikið en of lítið. Þá stæði yfir samtal við Seðlabankann sem einnig byggi yfir tækjum til að veita súrefni inn í hagkerfið.