Ein áhugaverðasta kauphallarskráning ársins er á dagskránni í fyrri hluta þessa mánaðar. Sú á sér stað í Kóreu, óþarft er að tilgreina hvort það er Norðrið eða Suðrið sem um ræðir, en áhuginn eftir hlutum er slíkur að seðlabanki landsins hefur áhyggjur af því að áhrifa skráningarinnar muni gæta á peningamörkuðum þar ytra.

Fyrirtækið sem um ræðir kallast Big Hit Entertainment (Bighit), fimmtán ára gömul tónlistarútgáfa sem sérhæfir sig í svokölluðu Kóreupoppi, gjarnan stytt í K-popp. Stefnan hefur um árabil notið gríðarlegra vinsælda í löndum Asíu en hefur að undanförnu fært út kvíarnar og náð vinsældum í öðrum heimshornum. Miðað við gróskuna í stefnunni mætti gera ráð fyrir að Bighit hefði heila halarófu listamanna á sínum snærum en staðreyndin er sú að sem stendur eru hljómsveitirnar aðeins tvær. Það vill hins vegar svo til að önnur þeirra, strákasveitin BTS, er ein allra vinsælasta hljómsveit samtímans, ef ekki sú vinsælasta.

Sveitin var stofnuð fyrir tæpum áratug og hóf að gefa út tónlist undir merkjum Bighit árið 2013. Síðan þá hefur hróður hennar og vinsældir vaxið jafnt og þétt. Raunar er það svo að áður en sveitin gekk til liðs við Bighit átti útgefandinn í fjárhagskröggum en því fer fjarri að það sé raunin nú. Í vor, um svipað leyti og kórónaveirufaraldurinn setti allt menningar- og listalíf úr skorðum, hélt Bighit ótrautt áfram og tilkynnti um að það hygði á skráningu á aðalmarkað kauphallarinnar í Busan. Um miðjan ágúst kynnti félagið hálfsársuppgjör sitt og er óhætt að fullyrða að það hafi gefið ágæt fyrirheit um komandi útboð. Meðan flest tónlistarfólk grét það að geta ekki haldið tónleika – og að hafa ekki verið duglegra við að reikna sér endurgjald – malaði BTS, og þar með Bighit, gull.

Varningur í stað tónleika

Rekstarhagnaður félagsins á tímabilinu nam 49,7 milljörðum kóreskra „won-a“, andvirði um 42,4 milljóna dollara eða rúmlega 5,9 milljarða króna miðað við gengi dagsins. Var þar á ferð mesti hálfsársrekstrarhagnaður félagsins í sögu þess og það þrátt fyrir að faraldurinn hefði neytt sveitina til að fresta tónleikaferðalagi sínu. Þess í stað rökuðu drengirnir inn tekjum í gegnum sölu á tónlist og ýmsum varningi tengdum sveitinni en hækkunin á þeim bænum nam tæpum fjórðungi milli ára. Alls námu heildartekjur af sölu sexföldum rekstrarhagnaði tímabilsins.

Líkt og fram hefur komið er fyrirhugað að skrá félagið á markað í október og munu tilboðsbækur opnast í byrjun næstu viku. Gefið verður út nýtt hlutafé sem mun samsvara um 20% af heildarhlutafé í félaginu og munu þeir hluthafar sem fyrir eru þynnast út í samræmi við það. Útboðsgengi verður á bilinu 105 þúsund til 135 þúsund won, það er 89,45 til 115 dollarar eða um 12.500 til 16.000 íslenskar krónur. Alls verða um sjö milljónir nýrra hluta í boði og heildarvirði þeirra því rúmlega 800 milljónir dollara. Heildarvirði félagsins er því áætlað rúmlega 4 milljarðar dollara.

Seðlabankinn fylgist með

Greinendur ytra eru misbjartsýnir á gengi Bighit eftir skráningu á markað. Bent hefur verið á að P/E hlutfall félagsins sé 61 á móti einum, sem er um tvöfalt hærra en gengur og gerist í þessum geira. Þá hafa ýmsir áhyggjur af því að félagið setji öll egg sín í sömu körfu og að alls kostar óvíst sé hvað taki við þegar að herskyldu meðlima kemur. Herskyldan hefur í gegnum tíðina farið illa með ýmsar K-pop sveitir. Á pappírunum á Suður-Kórea í stríði við nágranna sína í norðri, þótt vopnahlé hafi verið í gildi frá 1953, og er almenn herskylda því í gildi. Afar erfitt er að komast undan henni en ýmsir hafa kallað eftir því að BTS muni fá að sleppa við þá afplánun.

Undanfarnar vikur hafa stjórnendur Bighit fundað með fjárfestum og miðað við fréttaflutning af þeim fundum er ekki annað að sjá en að áhuginn sé mikill. Viðbúið er að umframeftirspurn verði gífurleg og hafa verið sagðar fregnir af því að mögulega muni fjárfestar skrá fyrir þúsundfalt fleiri hlutum en verða í boði. Því hefur meðal annars verið spáð að tilboð fyrir um 85 milljarða dollara, andvirði um 11.850 milljarða íslenskra króna, muni berast í þá hluti sem í boði eru. Seðlabanki Suður-Kóreu fylgist grannt með þróun mála en stjórnendur bankans óttast að umframeftirspurnin geti haft umtalsverð áhrif á peningamarkaði til skamms tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .