Morgan Stanley fékk ekki þóknun fyrir söluna á 6% hlut Seðlabankans í Kaupþingi sem stærstu hluthafar í þrotabúinu keyptu fyrir um ári síðan. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um varð Seðlabankinn af milljörðum við söluna því ekki hafði verið upplýst um sátt í bótakröfu þrotabúsins á hendur Deutsche bank.

Seðlabankinn segir fjárfestingarbankann ekki hafa vrið ráðgjafa í sölunni heldur miðlara í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins við því hvort seðlabankinn hafi fengið óviðunandi ráðgjöf í söluferlinu. „Tekjur miðlara af viðskiptum af þessu tagi liggja í mun á kaup- og sölugengi bréfa,“ segir í svari Seðlabankans.

„Skuldabréfin voru seld í opnu ferli fyrir milligöngu alþjóðlega fjármálafyrirtækisins Morgan Stanley og allir sem uppfylltu almenn skilyrði (Mifid, KYC, AML) gátu gert kauptilboð. Bréfin voru síðan seld hæstbjóðanda.“

Fjármálaeftirlitið sagðist ekki geta upplýst um hvaða mál væru til skoðunar, en Sveinn Arason ríkisendurskoðunar segir að enn sé ekki búið að taka málið til skoðunar hjá embættinu. „Við munum væntanlega leggjast yfir það sem hefur verið sagt og hugsanlega óska eftir beinum viðbrögðum frá Seðlabankanum um atburðarrásina.“