Landsréttur hefur sýknað Seðlabanka Íslands í tveimur málum þar sem þess var krafist að bankinn greiddi samanlagt 246 milljónir króna í skaðabætur vegna stjórnvaldsaðgerða tengt nauðasamningum Klakka. Með þessu staðfesti rétturinn niðurstöðu héraðsdóms í málunum.

Samkvæmt nauðasamningi Klakka fengu kröfuhafar í félagið greiðslur í formi nýs hlutafjár í félaginu auk króna eftir því sem laust fé hrökk til. Þegar hert var á gjaldeyrishöftum féll niður undanþága til að greiða kröfur úr þrotabúum eða greiðslur samkvæmt nauðasamningum milli landa. Einhverjir kröfuhafar Klakka brugðu þá á það ráð að selja kröfur sínar.

Í hópi þeirra sem keyptu slíkar kröfur voru erlend móðurfélög félaganna 1924 ehf. og Rasks ehf. Krafan var síðan lánuð dótturfélögunum með tegundarákveðnu láni og fóru þau fram á að fá greiðslur samkvæmt samningum til sín. Gekk það fyrst um sinn en í janúar 2015 tók Seðlabankinn til skoðunar hvort fyrirkomulagið færi á svig við gjaldeyrislög. Það varð niðurstaðan og stjórnvaldssekt lögð á félögin. Þær voru seinna meir felldar niður með dómum Hæstaréttar en rétturinn byggði á því að þótt um lögbrot hefði verið að ræða hefði gjörningnum í engu verið leynt.

Meðan athugun bankans stóð yfir voru greiðslur til félaganna settar á ís og voru dómsmálin nú höfðuð til heimtu skaðabóta vegna þessa. Töldu félögin að Seðlabankinn hefði ekki haft heimild til þess arna og að þau hefðu farið á mis við að geta nýtt fjármunina til fjárfestinga á meðan.

Að mati Landsréttar var ekki unnt að fallast á það með félögunum tveimur að fyrrnefndu greiðsluhléi mætti jafna við kyrrsetningu fjármuna og því ekki hægt að greiða bætur á þeim grunni. Var því leyst úr málinu á grunni almennu sakarreglunnar.

Rétturinn féllst heldur ekki á að greiðslur hefðu verið stöðvaðar án lagaheimildar eða í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga. Enn fremur hefði bankinn ekki farið út fyrir valdheimildir sínar með athugun sinni. Þá benti rétturinn á að þótt lagatúlkun stjórnvalds stæðist ekki fyrir dómi þá leiddi það ekki sjálfkrafa til bótaskyldu.

„Í ljósi þess hve ógegnsæ framangreind lagaákvæði voru verður að ætla [Seðlabankanum] ákveðið svigrúm til að móta túlkun sína og framkvæmd á grundvelli laganna, þar með talið hvernig bregðast skyldi við brotum eins og þeim sem [félögin gerðust] sek um,“ segir í forsendum dómsins. Upphafleg túlkun bankans hafi verið í samræmi við tilgang fjármagnshaftanna. Þá var ekki fallist á það að dráttur á meðferð málsins hjá Seðlabankanum gæti bakað bankanum bótaskyldu.

Dómar héraðsdóms, um sýknu Seðlabankans, standa því óhaggaðir. Málskostnaður fyrir Landsrétti var felldur niður