Umtalsverðar efasemdir hafa verið um fyriráætlanir nýrra eigenda Wow Air sem kynntar voru á blaðamannafundi í síðustu viku. Meðal annars hefur vakið athygli að félaginu hefur ekki verið úthlutað flugrekstrarleyfi, hvorki hér á landi né í Bandaríkjunum. Einnig var tilkynnt á blaðamannafundunum að vefsíða félagsins myndi fara í loftið og sala miða hefjast í þessari vikunni, en nú er vikan senn á enda og ekkert bólar á vefsíðunni né miðasölunni.

Þá þykja fyrirheit um mikla þjónustu og þægindi, sem Wow hyggst bjóða flugfarþegum, ekki vera í samræmi við þann lágfargjaldarekstur sem talsmenn Wow hafa sagst stefna á.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segir það hvorki í höndum ISAVIA að veita flugfélögum „slott“ á Keflavíkurflugvelli né þjónusta flugvélar sem lendi á vellinum. Hvor tveggja sé í höndum annara fyrirtækja og hann viti ekki stöðu þeirra mála.

„Við hjá Isavia höfum ekki fengið upplýsingar um áform nýja félagsins umfram það sem þegar hefur komið fram. Við fögnum því að ný félög lýsi yfir áhuga á að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli,“ segir Guðjón Helgason.

Gunnar Steinn Pálsson almannatengill hefur verið talsmaður Michele Ballarin hér á landi, en Ballarin er aðaleigandi og stjórnarformaður hins nýja Wow Air. Inntur eftir stöðu flugrekstrarleyfa, úthlutun slotta, væntanlegra flugvéla og vefsíðunnar, segir Gunnar Steinn að ákveðið hafi verið að upplýsa ekki um undirbúning félagsins í smáatriðum. En hefur hann þá ekki orðið var við vaxandi efasemdir í garð félagsins?

„Jú, ég hef orðið var við ákveðna tortryggni. Mögulega er það tilkomið vegna þess að  forsvarsmaður fjárfestahópsins, sem stendur á bak við kaupin, hefur alla tíð kosið að halda sig til hlés í fjölmiðlaumræðunni. Þar af leiðandi höfum við líka tekið þá ákvörðun um að upplýsa ekki daglega um gang undirbúningsins. En hann er vissulega í fullum gangi, sumt hefur tekið lengri tíma en áætlað var og annað gengið betur en lagt var upp með. Heilt yfir eru áformin á áætlun. Blaðamannafundurinn í síðustu gaf vissulega mikil fyrirheit og ég er fullviss um að við þau fyrirheit verður staðið,“ segir Gunnar Steinn Pálsson.