Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt, segir það vera tilraun til að þagga niður í gagnrýni sinni á Hæstarétt að hæstaréttardómarinn Benedikt Bogason hefur stefnt honum fyrir meiðyrði vegna ummæla í nýrri bók Jóns Steinars.

Eins og fram kemur í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins hefur Jón Steinar Gunnlaugsson gefið út bókina Með lognið í fangið: Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun, þar sem hann fer yfir gagnrýni sína á ýmsa dóma Hæstaréttar, sérstaklega á árunum eftir fall viðskiptabankanna.

Ummælin sem um ræðir snúa að ummælum Jóns Steinars um dóminn yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem vegna langvarandi vináttu Jón Steinar lýsti sig vanhæfan til að dæma yfir á sínum tíma.

Fer fram á 2 milljónir

Hefur Benedikt krafið Jón Steinar um tvær milljónir króna í miskabætur vegna þeirra orða Jóns Steinars að Hæstiréttur hafi framið dómsmorð á Baldri, það er vísvitandi kveðið upp rangan dóm í málinu að því er fram kemur á RÚV .

„Menn skulu hafa það í huga að þarna er ég að fjalla um ríkisstofnun sem fer með mjög þýðingarmikið vald gagnvart borgunum í landinu og gagnrýni meðferð hennar á þessu valdi og meðal annars í þessum kafla bókarinnar,“ segir Jóns Steinar sem segist hafa velt fyrir sér hvort með ummælunum fælust mögulega meiðyrði.

„Já, ég hugsaði alveg um það. Ég reyni að gæta mín á því að ganga ekki lengra en ég hef heimild til þess að ganga að íslenskum lögum.“ Jón Steinar segir meðferð Hæstaréttar á ýmsum málum hafa gengið úrskeiðis eftir hrunið þegar dómstólar hafi reynt að gera almenningi til hæfis í úrskurðum sínum.

Hlýtur að vera viljaverk

„Ef einhver telur að dómararnir hafi skrifað þennan texta af gáleysi en ekki af ásetningi þá verða menn auðvitað bara að telja það. Það er auðvitað alveg fráleit ályktun – þetta hlýtur að vera viljaverk, sá verknaður sem þarna var framinn,“ segir Jón Steinar.

„Mér fannst nú eiginlega betra fyrir þá að ég segði að þeir gerðu þetta vísvitandi heldur en að þeir hefðu gert það af gáleysi, því að dómarar í Hæstarétti hljóta að vita hvað þeir eru að gera.“